Skýrsla bæjarstjóra 4/11-17/11/2020
Þrátt fyrir samkomutakmarkanir, nálægðarmörk og aðrar sóttvarnaaðgerðir vegna Covid-19 þá halda hjól atvinnulífsins til allrar hamingju áfram að snúast og síðustu vikurnar hef ég átt fjölda fjarfunda með einstaklingum og fulltrúum fyrirtækja um stöðu mála. Þar ber ýmislegt á góma, meðal annars sú þjónusta sem sveitarfélagið veitir, skipulagsmál, lóðamál og framtíð rekstrar fyrirtækja í bænum. Þótt staðan sé snúinn þá skynja ég samt að fólk er engan veginn á því að leggja árar í bát og samtal mitt við þetta fólk er yfirleitt á jákvæðu og uppbyggilegu nótunum.