Leikskólinn Klappir.
Aðalinnritun í leikskóla á Akureyri hefst í byrjun marsmánaðar með því að foreldrar fá sent innritunabréf í tölvupósti. Mikilvægt er að allar umsóknir um leikskóla og beiðnir um flutning milli leikskóla berist eigi síðar en 1. febrúar næstkomandi.
Sótt er um á rafrænu formi í gegnum þjónustugátt Akureyrarbæjar.
Foreldrar sem þegar hafa sótt um leikskóla en óska eftir breytingum á vali sínu er bent á að sækja um að nýju.
Klappir - nýr leikskóli við Höfðahlíð
Áætlað er að leikskólinn Klappir við Höfðahlíð verði tilbúinn haustið 2021 og geta foreldrar því sótt um pláss þar fyrir börn sín. Þetta verður sjö deilda leikskóli á tveimur hæðum og er gert ráð fyrir 144 nemendum.
Á efri hæð Klappa verða fimm deildir, þar af þrjár fyrir börn frá eins árs aldri, ásamt starfsmannarými. Á neðri hæð verða tvær deildir, salur og eldhús. Leikskólinn er alls um 1.450 fermetrar að stærð en heildarstærð lóðar er ríflega 3.500 fermetrar. Skólastjóri Klappa verður Drífa Þórarinsdóttir. Hér er hægt að skoða nýlega frétt um byggingu leikskólans.
