Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fékk í gær afhenta skýrslu starfshóps sem var falið það verkefni að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni.
Megintillaga starfshópsins er að Akureyri, með bakland í nærliggjandi svæði, verði flokkuð í byggðastefnu stjórnvalda sem svæðisborg með skilgreinda ábyrgð og skyldur sem þjóni íbúum og atvinnulífi í landshlutanum og eftir atvikum á landsvísu.
Starfshópurinn leggur því til að Akureyri verði sérstakt byggðastig milli höfuðborgar og stærri þéttbýliskjarna á landsbyggðunum, fái bæði aukið vægi í samskiptum við ríkisvaldið og hvað varðar almenna þjónustu við landshlutann í heild. Nýtt byggðastig, segir í skýrslunni, muni auk hefðbundinna hlutverka stærri þéttbýliskjarna bjóða upp á ýmsa þjónustu, mannlíf og menningu sem skarast við hlutverk höfuðborgarinnar. Markmiðið er að tryggja sem best sjálfbæra þróun allra byggða á Norðurlandi og austur um land og skapa nýja og áhugaverða valkosti í búsetu á Íslandi og styrkja þar með samkeppnisstöðu Íslands í heild.
Starfshópurinn var skipaður af ráðherra í október 2020. Í honum voru Birgir Guðmundsson, dósent og formaður hópsins, Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar, Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi á Akureyri. Með hópnum störfuðu sérfræðingar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri, Byggðastofnun og SSNE.
Til stuðnings við aðaltillögu sína um svæðisbundið hlutverk Akureyrar dregur starfshópurinn fram áhersluatriði í níu liðum á sviði heilbrigðismála, félagsþjónusta, menningar, menntunar, norðurslóða, raforku, samgöngumála, stjórnsýslu og öryggismála.
Nánari upplýsingar í frétt á vef stjórnarráðsins.
Hér er hlekkur á skýrsluna.