Vorar í Hrísey

Þorpið í Hrísey.
Þorpið í Hrísey.

Það er vor í lofti í Hrísey. Eyjan er snjólaus að kalla og farfuglar farnir að láta á sér kræla. Þrestir komu þangað í hópum fyrir réttri viku og tjaldar eru komnir í fjörurnar, þreyttir eftir langt flug. Grágæsir eru komnar á varpstöðvar sínar í eyjunni en þeim hefur fjölgað mikið þar á síðustu árum.

Þorsteinn Þorsteinsson, fuglaáhugamaður í Hrísey, segir okkur að fálkar hafi sést elta rjúpur um þorpið undanfarið og úti á eyjunni einnig. Fyrstu karrarnir séu komnir á sína hefðbundnu setstaði og fari brátt að verja þá af fullum þunga.

Krókusar spretta nú í görðum og hinar "óæskilegu" plöntur, eins og lúpína, hvönn og skógarkerfill, eru farnar að teygja sig upp úr moldinni. Það er því vor í lofti í Hrísey nú undir lok marsmánuðar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan