Vinir Akureyringa í Curitiba

Magnús Ólason og Eiríkur Björn Björgvinsson.
Magnús Ólason og Eiríkur Björn Björgvinsson.

Í síðustu viku tók Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, á móti góðum gjöfum og skjölum frá borgarráði Curitiba í Brasilíu. Magnús Ólason afhenti bæjarstjóra gjafirnar en Magnús er búsettur í Curitiba og var fulltrúi Akureyrarbæjar við athöfn í byrjun október þegar borgarráð Curitiba afgreiddi með formlegum hætti ákvörðun sína um vinabæjartengsl við Akureyri.

Meðal þess sem barst frá Curitiba var bók um borgina, skjal þar sem staðfest er að Curitiba hafi gert Akureyri að vinabæ sínum og skjöldur til minningar um að 150 ár eru liðin frá fyrstu Brasilíuferðunum. Á næsta ári er reiknað með heimsókn til Akureyrar frá fulltrúum íbúa Curitiba sem eiga ættir að rekja til Íslands og mun sveitarfélagið taka á móti þeim.

Tilefni þess að borgarráð vill taka upp formleg vinabæjartengsl við Akureyri er að um þessar mundir eru 150 ár síðan fyrsti hópur Íslendinga flutti búferlum til Suður-Brasilíu en þeir komu flestir úr Þingeyjarsýslum og lögðu upp frá Akureyri. Viðstaddir athöfnina í byrjun október voru tugir afkomenda þessa fólks. Á fjórða tug Íslendinga komst heill á húfi alla leið til Brasilíu á árunum 1863-1873 og búa flestir afkomendur þeirra í Curitiba eða nágrenni borgarinnar sem er höfuðborg Paraná-fylkis í Suður-Brasilíu.

Meðfylgjandi eru myndir af því þegar Eiríkur Björn hitti Magnús Ólason sem búsettur er í Curitiba og þakkaði honum fyrir að taka að sér að vera formlegur fulltrúi Akureyrarkaupstaðar í samskiptum við borgarráð Curitiba.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan