Viðburðarík aðventa í Hrísey

Mikið var um að vera í Hrísey um helgina: jólatónleikar, hangikjötsveisla, upplestur og kaffihlaðborð, auk þess sem farin var skemmtileg leikhúsferð fram í Eyjafjörð að sjá Emil í Kattholti.

Hið árlega jólabingó Slysavarnarfélagsins var haldið í Brekku fimmtudaginn 12. desember. Þar mæta börnin fyrst og spila bingó og um kvöldið er svo bingó fyrir fullorðna. Nokkrir nældu sér í jólasteikina og ýmislegt góðgæti í vinninga.

Á föstudaginn voru litlu jól Eyfars (rekstraraðila Hríseyjarferjunnar) en þeir hafa undanfarin 10 ár boðið öllum íbúum í hangikjöt og tilheyrandi. Þangar komu rúmlega 90 manns og jólasveinarnir kíktu í heimsókn og færðu börnunum smá glaðning. Mikil ánægja er með þennan viðburð og á Eyfar þakkir skilið fyrir rausnarlegt boð á aðventunni.

Foreldrafélag Hríseyjarskóla stóð fyrir ferð á Emil í Kattholti í Freyvangsleikhúsinu á laugardaginn og þangað stormuðu leikskólabörnin og nemendur á yngsta- og miðstigi skólans full tilhlökkunar og má segja að mikil stemming hafi verið í ferjunni. Það voru líka ánægðir krakkar sem komu heim um kvöldið.

Það sama kvöld hélt Sister Sister tónleika í Brekku og þar var góð mæting.

Loks er að geta jólastundar Ferðamálafélagsins sem haldin var í húsi Hákarla Jörundar á sunnudaginn. Þangað mættu um 40 manns að hlusta á sögur, ljóð og söng. Frá árinu 2008 hefur Ferðamálafélag Hríseyjar staðið fyrir þessari jólastund og hefur hún ávallt verið vel sótt.  Á eftir hefur svo verið kaffihlaðborð í Brekku og streymir fólk þangað og nýtur veitinganna. Gallerí Perla var einnig opin.

Myndirnar að neðan tala sínu máli. Smellið á þær til að sjá stærri útgáfur og fletta á milli þeirra.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan