Mynd: Ragnar Hólm Ragnarsson.
Starfsmenn Akureyrarbæjar hafa undanfarna daga sett upp jólaljós víðs vegar um bæinn en svo virðist sem það falli ekki vel í kramið
hjá öllum því mikið hefur verið um skemmdarverk. Ljósaperur hafa verið teknar úr trjám í flestum hverfum bæjarins en
ástandið er þó sýnu verst í kirkjutröppunum niður af Akureyrarkirkju þar sem mörgum perum hefur verið stolið dag hvern.
Akureyrarbær keypti svokallaðar LED perur sem hafa að minnsta kosti 3ja ára líftíma, eru óbrjótanlegar og orkusparandi. Þetta eru mjög
dýrar perur og því er fjárhagstjón bæjarins og útsvarsgreiðenda umtalsvert. Að auki hafa tveir ljósakastarar sem voru gjöf
frá verkfræðiskrifstofunni Verkís og lýstu upp tré í gilinu verið fjarlægðir.
Bæjarbúar og gestir bæjarins eru vinsamlegast beðnir að láta lögreglu vita ef sést til skemmdarvarga að fjarlægja ljósaperur eða
annað jólaskraut sem er sameign bæjarbúa og þeir vilja gjarnan fá að njóta saman í friði í aðdraganda jóla.