Uppselt á Snjókarlinn

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heldur árlega Aðventuveislu sína kl. 16.00 laugardaginn 1. desember þegar sýnd verður teiknimyndin "Snjókarlinn" á risatjaldi í Hamraborg í Hofi við undirleik sveitarinnar. Sinfóníuhljómsveitin nýtur liðsinnis einsöngvarans Gissurar Páls Gissurarsonar og barna- og stúlknakórs Akureyrarkirkju við flutninginn. Uppselt er á sýninguna.

Sagan um Snjókarlinn sem mörgum er að góðu kunn varð til þegar höfundur bókarinnar, Raymond Briggs, vaknaði einn frostkaldan morgun og hreifst af alhvítri jörð sem sveipaði umhverfið ljósi og kyrrð. Þessi töfrastund snart hann djúpt og varð uppsprettan að sögunni sem segir frá ævintýrum lítils drengs og snjókarls. Teiknimyndin sem fylgdi í kjölfar sögunnar hefur náð miklum vinsældum, ekki síst vegna tónlistarinnar sem Howard Blake samdi við myndina. Myndin skipar nú stóran sess í jólahaldi víða um veröld og þykir bera með sér sannan jólafrið.

Í Aðventuveislu SN verða auk þessa mörg af eftirlætisjólalögum þjóðarinnar flutt og má með sanni segja að efnisskráin sé fjölbreytt og fjölskylduvæn. "Það er reglulega ánægjulegt að geta nýtt sér möguleika hússins til fulls með því að tengja saman lifandi tónlist og mynd, við erum mjög spennt að prófa þessa nýju leið en þetta er í fyrsta sinn sem SN tengir tónlistarflutning við kvikmynd," segir Brynja Harðardóttir framkvæmdastjóri SN. "Ég get fullyrt að þetta verða tónleikar sem koma til með að gleðja og hlýja öllum um hjartarætur enda veisla fyrir öll skynfærin og ánægjulegt frá því að segja að undirtektir hafa verið afar góðar og uppselt er á tónleikana."

Þess ber að geta að fyrsti gluggi í dagatali Hofs þann 1. desember er í boði SN sem býður alla velkomna á æfingu hjá sér kl. 12.00-12.30. Gestum gefst m.a. tækifæri að heyra titillagið í  kvikmyndinni um Snjókarlinn.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan