Unnið gegn rakaskemmdum í Lundarskóla

Mynd af heimasíðu Lundarskóla.
Mynd af heimasíðu Lundarskóla.

Nýverið gerði verkfræðistofan Mannvit úttekt á Lundarskóla vegna hugsanlegra rakaskemmda og komu í ljós skemmdir á afmörkuðum svæðum. Að mati sérfræðinga Mannvits eiga skemmdirnar ekki að hafa veruleg áhrif á kennslu eða annað starf innan skólans, enda verði gripið til fullnægjandi ráðstafana. Strax fyrir páska hófust úrbætur og verklegar framkvæmdir við skólann. Verið er að endurnýja drenlögn umhverfis húsakynnin og einnig verður ráðist í viðgerðir og fyrirbyggjandi aðgerðir innanhúss.

Starfsmenn Mannvits fóru um byggingarnar í fylgd umsjónarmanna húsnæðisins og fengu upplýsingar um hvar rakaskemmda hefði orðið vart. Mannvit beindi aðallega sjónum að þeim stöðum en einnig voru aðrir hlutar skólans skoðaðir og tekin sýni víða í húsnæðinu. Rakamælingar voru gerðar og leitað eftir ólykt.

Vísbendingar um örveruvöxt, sem líklegast er að komi frá rakaskemmdum, fundust á afmörkuðum stöðum í eldri hluta skólans, nánar tiltekið á neðri hæðum A- og B-álmu (kjallara). Sérfræðingar Mannvits töldu að grípa þyrfti til ráðstafana sem nú þegar eru hafnar en að þeim uppfylltum eigi skemmdirnar ekki að hafa áhrif á kennslu eða annað starf innan skólans. Stefnt er að því að úrbótum verði lokið sem allra fyrst.

Afmörkuð svæði verða lokuð meðan á viðgerðum stendur og sú kennsla sem þar hefur farið fram flutt til innan skólans. Þegar viðgerðum á skemmdum verður lokið, verður strax ráðist í víðtækar hreingerningar á húsnæðinu og að því loknu verður sýnataka endurtekin til að ganga úr skugga um að allar framkvæmdir hafi skilað tilætluðum árangri.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan