Vilhjálmur B. Bragason.
Þrjú ungskáld frá Akureyri, Vilhjálmur B. Bragason, Gréta Kristín Ómarsdóttir og Gunnar Már Gunnarsson, munu lesa úr
verkum sínum í Flóru, á nk. laugardag kl. 16.00 og er viðburðurinn hluti af dagskrá Afmælisvöku.
Gunnar Már Gunnarsson hefur gefið út eina ljóðabók (Skimað út) hjá Populus Tremula forlaginu á Akureyri og tvær
ljóðabækur hjá Uppheimum (Á milli barna og Marlene og ég). Gunnar hefur undanfarin ár verið einn skipuleggjenda Litlu
Ljóðahátíðarinnar á vegum Populus Tremula.
Gréta Kristín Ómarsdóttir hefur gefið út eina ljóðabók (Fósturvísur) hjá Populus Tremula forlaginu á Akureyri
og starfrækti í vor félagið Gilitrutt í Deiglunni með tveimur skáldasystrum sínum. Þær hafa í sumar staðið fyrir
ljóðakvöldaröðinni "orðið núorðið".
Vilhjálmur B. Bragason er leik og ljóðskáld. Vilhjálmur hefur skrifað fjölda ljóða og smásagna og unnið til verðlauna fyrir hvort
tveggja. Fyrsta leikverk Vilhjálms í fullri lengd, Og svo var bankað, var frumflutt af Leikhópnum Þykistu á vormánuðum 2011 í Deiglunni
á Akureyri.
Skáldin munu öll lesa upp glænýtt efni í bland við eldra góðgæti. Upplestur hefst kl. 16.00 og er aðgangur ókeypis.
Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áhersla er
lögð á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson,
myndlistarmaður.