Undirbúa lagningu ljósleiðara til Hríseyjar

Siglt til Hríseyjar. Mynd: Almar Alfreðsson.
Siglt til Hríseyjar. Mynd: Almar Alfreðsson.

Fjarskiptasjóður samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins hefur samþykkt að veita Akureyrarbæ 6 milljón króna styrk til lagningar stofnstrengs með ljósleiðara til Hríseyjar. Fjárhæðin nýtist til að greiða hluta kostnaðar við lagningu strengsins 3-4 km leið frá fasta landinu yfir sundið til Hríseyjar.

Í minnisblaði sem Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sendi fjarskiptasjóði 23. febrúar sl. fyrir hönd bæjarstjórnar Akureyrar segir m.a.:

Nettengingar í Hrísey eru nú í gegnum örbylgjusamband sem hindrar fulla afkastagetu við flutning á efni um internetið og hamlar hraðvirkni í tölvuvinnslu. Afar brýnt er að úr þessu verði bætt sem fyrst. Með því að tengja Hrísey við ljósleiðara má tryggja betur fasta búsetu í eyjunni og gera hana að álitlegum búsetukosti fyrir fólk í öllum starfsgreinum. Ljósleiðaratenging yrði einnig til að efla ferðaþjónustu í Hrísey sem hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum.

Finna þarf hagkvæmasta kostinn við lagningu ljósleiðara yfir sundið frá fasta landinu til eyjarinnar í samráði og samvinnu við þar til bæra aðila og undirbúa tengingu við hús í byggðakjarnanum líkt og gert er í öðru þéttbýli á Íslandi.

Hér með er óskað eftir viðræðum um hvernig best er að fjármagna þessa framkvæmd, hvaða gögn þurfa að liggja fyrir af Akureyrarbæjar hálfu og hvað þarf til að hrinda í framkvæmd lagningu ljósleiðara til Hríseyjar eins fljótt og auðið er.

"Ég fagna mjög þessum jákvæðu undirtektum fjarskiptasjóðs og nú verður leitað allra leiða til að fjármagna það sem upp á vantar til þess að unnt verði að tengja Hrísey við ljósleiðaranet Íslands," sagði Ásthildur þegar fregnir bárust af styrkveitingu sjóðsins.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan