Með hækkandi sól og sumri fjölgar þeim sem nota reiðhjól og aðra virka ferðamáta. Margt bendir líka til þess að útivist og hreyfing hafi stóraukist á Akureyri í samkomubanninu og því ber að fagna.
Heilsu- og hvatningarátakið Hjólað í vinnuna er nú hafið og eru Akureyringar hvattir til að halda áfram að hjóla eða ganga, enda er það bæði gott fyrir heilsuna og umhverfið.
Blönduð umferð á stígunum
Þessu fylgir óhjákvæmilega aukin umferð um helstu stíga bæjarins sem eru fyrir blandaða umferð hjólandi og gangandi, þótt almennt njóti gangandi vegfarendur forgangs í umferðinni. Mikilvægt er að sýna tillitssemi og kurteisi, enda förum við á misjöfnum hraða um stígana.
Í drögum að nýju stígakerfi, sem er í vinnslu, er gert ráð fyrir auknum aðskilnaði gangandi og hjólandi umferðar með uppbyggingu á nýjum stígum og endurbótum á þeim sem fyrir eru.
Tilmæli til hjólreiðafólks
Samgöngustofa hefur tekið saman nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar hjólað er á stígum. Til dæmis:
- Hægri umferð – Allir vegfarendur á stígum og gangstéttum ættu að miða við að í gildi sé hægri umferð og taka eigi fram úr vinstra megin.
- Láttu í þér heyrast – Hjólreiðafólk skal setja sig í spor annarra vegfarenda eins og gangandi sem ekki búast við hröðum og skyndilegum framúrakstri. Mikilvægt er að hægja á sér og gefa hljóðmerki áður en komið er að gangandi vegfarendum, blindhorni eða beygju.
- Sýn fram á stíginn – Haga þarf hraða miðað við aðstæður. Ef myrkur er eða hjólað um blindhorn þarf að hægja á sér.

Sömu tilmæli gilda um rafmagnshlaupahjól og önnur lítil vélknúin ökutæki sem ekki eru hönnuð til hraðari aksturs en 25 km/klst, hvort sem þau eru bensín- eða rafdrifin. Heimilt er að aka þessum tækjum á gangstéttum og stígum svo framarlega sem það veldur ekki óþægindum fyrir gangandi vegfarendur eða ef lagt hefur verið sérstakt bann við því. Hafa þarf í huga að enginn yngri en 13 ára má stjórna léttu bifhjóli í flokki I.
Og þótt hjólreiðar séu án efa einn öruggasti og heilsusamlegasti ferðamáti sem hugsast getur þá er mikilvægt að huga vel að öryggisbúnaði. Þar gegnir hjálmurinn lykilatriði og svo er tilefni til að minna á að símanotkun á hjóli er bönnuð samkvæmt lögum. Nánar um öryggisbúnað hér.