Tónlistarveisla á Græna hattinum

Hljómsveitin Brother Grass.
Hljómsveitin Brother Grass.

Græni hatturinn er fyrir löngu orðinn einn þekktasti tónleikastaður landsins enda boðið upp á fjölbreytta og metnaðarfulla dagskrá allt árið um kring. Dagskráin um verslunarmannahelgina er einkar glæsileg þar sem fram koma Brother Grass, Hvanndalsbræður, Dúndurfréttir, Hjálmar og Bravó.

Tónlistarveislan byrjar á miðvikudaginn kl. 21.00 með tónleikum þjóðlagasveitarinnar Brother Grass sem spilar bræðing af blús, þjóðlagatónlist og bluegrass. Hljómsveitin leggur ríka áherslu á þéttar raddir og gítarleik en auk þess spila meðlimir á ýmis óhefðbundin hljóðfæri, svo sem þvottabala, gyðingahörpu og víbraslappa.

Spéfuglarnir úr Hvanndalsbræðrum hefja formlega dagskrá helgarinnar á Græna hattinum með tónleikum á fimmtudaginn kl. 22.00. Þessa gleðisveit þarf ekki að kynna frekar og ljóst að það verður glatt á hjalla fram eftir fimmtudagskvöldi. Vinir Akureyrar úr Dúndurfréttum stíga á stokk á föstudagskvöld og flytja gestum sannkallaðan rokk ópus þar sem rennt verður í gegnum allt það besta frá hljómsveitum á borð við Kansas, Deep Purple, Pink Floyd, Led Zeppelin ofl. Tónleikarnir hefjast kl. 23.00.

Reggí hljómsveitin Hjálmar sér um að skemmta gestum á laugardagskvöld og hefur leik kl. 23.00. Hljómsveitin á sér stóran aðdáendahóp á Akureyri og hefur hin síðustu ár skipað sér fastan sess á Einni með öllu. Lokatóninn í dagskrá Græna hattsins um verslunarmannahelgina slær svo hin akureyrska Bravó með sannkölluðum bítlatónleikum á sunnudagskvöld sem hefjast kl. 23.00.

Græni hatturinn er opnaður klukkutíma fyrir hverja tónleika en forsala er nú þegar hafin í Eymundsson.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan