Tillögur að uppbyggingu á Austurbrú og Hafnarstræti

Loftmynd af tillögum þróunaraðila sem skipulagsráð hefur ákveðið að liggi til grundvallar skipulagsv…
Loftmynd af tillögum þróunaraðila sem skipulagsráð hefur ákveðið að liggi til grundvallar skipulagsvinnunni framundan.

Skipulagsráð hefur samþykkt að hefja vinnu við að breyta deiliskipulagi á svæði sem nær til lóðanna Austurbrúar 10-12 og Hafnarstrætis 80 og 82 í samræmi við tillögur þróunaraðila að uppbyggingu.

Í desember sl. samþykkti ráðið að úthluta þessum spennandi lóðum í miðbæ Akureyrar til Luxor ehf., en þó með fyrirvara um að lagðar yrðu fram nákvæmari hugmyndir um uppbyggingu. Þær hafa nú litið dagsins ljós og voru kynntar á fundi skipulagsráðs í gær.

Tillögurnar ganga í meginatriðum út á blandaða byggð með íbúðum af mismunandi stærðum og gerðum og verslunar- eða veitingastarfsemi. Gert er ráð fyrir að nýbyggingar myndi tvo kjarna í kringum opin sameiginleg garðsvæði með gönguleiðum, torgum og leiksvæðum.

Markmið þróunaraðila er að reiturinn verði til þess að styrkja stöðu miðbæjarins sem þungamiðju menningar, verslunar og þjónustu. Lögð er áhersla á að yfirbragð nýbygginga falli vel að núverandi byggð og bæjarmynd.

Tillagan gerir ráð fyrir að núverandi byggingarréttur norðan við Hafnarstræti 82 verði færður á suðurhlið sama húss, en með því móti myndast torg sem tengir Hafnarstræti inn í nýju byggðina. Lagt er upp með að gegnumakstur milli nýbygginga að Hafnarstræti og Austurbrú verði aflagður en í stað þess verði hugsanlega kvöð um gönguleið í gegnum hverfið ásamt niðurkeyrslu í bílageymslur.

Skipulagsráð heimilaði forsvarsmönnum Luxor ehf. að vinna að gerð breytingar á deiliskipulagi í samráði við sviðsstjóra skipulagssviðs og er sú vinna að hefjast. Drög að deiliskipulagsbreytingu verða kynnt ítarlega fyrir íbúum þegar þar að kemur og þá fær fólk einnig tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. 

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan