Egill Andrason verður með performatíska tónleika í Listasafninu á Akureyri á Listasumri 2022.
Listasumar byrjar mun fyrr en vanalega í ár en það verður sett 11. júní og lýkur 23. júlí. Er þetta gert til að koma til móts við vaxandi áhuga á listasmiðjum fyrir börn og ungmenni eftir skólalok. Jafnframt hefjast aðrir spennandi viðburðir Listasumars í júní. Má með sanni segja að ævintýrin verði til á Listasumri með fjölbreyttum uppákomum og upplifunum þar sem gestir og bæjarbúar njóta viðburða saman.
Líkt og undanfarin ár er fyrsti viðburður Listasumar tónleikar á þaki inngangs Listasafnsins á Akureyri og er það tónlistarmaðurinn iLo sem ætlar að fagna upphafi hátíðarinnar með krafti. Tónleikarnir verða laugardaginn 11. júní en stærstu viðburðir hátíðarinnar verða á laugardögum yfir tímabilið. Listasmiðjurnar eru tveggja eða þriggja daga og oftast á virkum dögum. Takmarkað pláss er í listasmiðjurnar og skráning nauðsynleg.
Viðburðadagatal hátíðarinnar er að finna á listasumar.is.
Listinn er ekki tæmandi því enn eiga viðburðir eftir að bætast við dagatalið.