Söngvararnir Sveinn Dúa Hjörleifsson tenór og Jón Svavar Jósefsson barítón leggja land undir fót til tónleikahalds undir yfirskriftinni "Sveitatónleikar með sumarívafi" og halda tónleika á Akureyri 8. júní.
Dagskrá tónleikanna verður að stærstum hluta íslensk sönglög og dúettar en þó verður hún brotin upp með nokkrum gullkornum óperubókmenntanna. Píanóleikur verður í höndum hinnar skeleggu Guðrúnar Dalíu Salómonsdóttur.
Eftir að hafa sungið saman í óperunni Cosí fan tutte og fundið með sér góðan samhljóm ákváðu Sveinn Dúa og Jón Svavar á frekara samstarf. Sveinn er að ljúka námi sínu hér á Íslandi og þykir með efnilegri tenórsöngvurum sem fram hafa komið á Íslandi undanfarin ár. Jón Svavar lauk á síðasta ári námi frá óperudeild Universität für Musik und darstellende Kunst Wien í Vínarborg og hefur margoft komið fram á tónleikum hér heima og á erlendri grund.
Píanóleikarinn Guðrún Dalía útskrifaðist frá Staatliche Hochschule für Musik und Darstellende Kunst Stuttgart með hæstu einkunn sumarið 2007. Þríeykið leiðir nú saman hesta sína á skemmtilegum og léttum tónleikum.
Tónleikarnir á Akureyri verða í Ketilhúsinu sunnudaginn 8. júní og hefjast kl. 17.00.