Stórt sundmót á Akureyri um helgina

Sundlaug Akureyrar.
Sundlaug Akureyrar.

Akureyrarbær býður keppendum á Aldursflokkameistaramóti Íslands í sundi (AMÍ) velkomna og óskar öllum góðs gengis og skemmtunar í Sundlaug Akureyrar.

AMÍ, sem er haldið á vegum Sundsambands Íslands og Sundfélagsins Óðins, hefst á morgun, föstudag, og verður allt svæði Sundlaugar Akureyrar lagt undir mótið meðan á því stendur, það er fyrir kl. 17 næstu þrjá daga.

Þar af leiðandi verður Sundlaug Akureyrar aðeins opin almenningi kl. 17-22 dagana 25.-27. júní. 

Von er á 270 keppendum á mótið. Að sögn Pálínu Dagnýjar Guðnadóttur, starfandi forstöðumanns Sundlaugar Akureyrar, er þetta í fyrsta sinn sem lauginni er lokað vegna sundmóts en það á að einfalda framkvæmd mótsins í alla staði, bæði fyrir mótshaldara, starfsfólk og keppendur.

Veðurspá fyrir helgina er góð og er sundþyrstum bent á aðrar frábærar sundlaugar í grenndinni. Glerárlaug verður opin meira en venjulega, það er kl. 9-17 á laugardag og sunnudag, og svo er tilvalið að skella sér í sund í Hrísey, Grímsey, Hrafnagili eða Þelamörk svo nokkur dæmi séu nefnd.  

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan