Auglýsing frá Sjónlistamiðstöðinni.
Sjónlistamiðstöðin á Akureyri stendur fyrir sýningunni "Hér, þar og allsstaðar" næsta sumar í tengslum við 150 ára
afmæli Akureyrarkaupstaðar. Um er að ræða samsýningu fjölda listamanna sem verður haldin út um allan bæ, nema ekki í húsakynnum
Sjónlistamiðstöðvarinnar; Listasafninu, Ketilhúsi og Deiglunni.
Hollendingurinn Joris Rademaker lagði grunninn að sýningunni fyrir hönd Myndlistarfélagsins. Í byrjun gekk hugmyndin út á að fá
lítinn hóp skúlptúrista til að gera verk á umferðareyjum og gatnamótum í bænum. Fyrr en varði þandist konseptið út
og varð að metnaðarfullu, margradda verkefni. Einnig þótti fallegt og vel við hæfi að efna til viðamikillar sýningar á þessum
merkilegu tímamótum kaupstaðarins.
Hér er um harla óvanalega samsýningu að ræða þar sem hver og einn syngur með sínu nefi og er aðeins fulltrúi síns
sjálfs. Ekkert sérstakt þema er í gangi annað en það að hylla bæinn og það samfélag sem við eru sprottin upp úr og deila
hugleiðingum, minningum og tilfinningum með þeim sem koma til með að njóta. Fólki er frjálst að vera gagnrýnið á þetta
samfélag ef sá gállinn er á, enda verður engin ritskoðun í gangi.
Sjónlistamiðstöðin heldur utan um framkvæmd verkefnisins og fylgir því eftir eins og kostur er. Verkefnið nær til allra myndlistarmanna sem
tengjast bænum sterkum böndum með einum eða öðrum hætti, þ.m.t. þeirra myndlistamanna sem í bænum starfa, brottfluttra listamanna, sem
margir hverjir ólust hér upp og tóku sín fyrstu skref á myndlistarbrautinni, að ógleymdum þeim listamönnum sem verið hafa mjög virkir
í myndlistarlífi bæjarins í gegnum tíðina þótt þeir séu ekki beinlínis ættaðir úr bænum. Enginn
greinarmunur verður gerður á listamönnum.
Áhugi á því að taka þátt í verkefnu er allt sem til þarf og að fólk líti á sig sem myndlistarmenn. Í
samræmi við það — og að tillögu Þórarins Blöndals — verður heldur engin dómnefnd sett á laggirnar til að velja og
hafna innsendum tillögum. Öllum verður gert jafnt hátt undir höfði að því tilskyldu að samþykki fáist hjá þeim sem
ráða yfir stöðunum þar sem til stendur að sýna verkin.
Allt er undir – myndlistarmenn geta valið sér sem vettvang blómabúð, búðarglugga, bókasafn, kirkju, vinnustað, veitingahús,
kaffihús, ráðhús, sundlaug, bryggjusvæði, almenningsgarð, torg, umferðareyju, ljósastaura ... í stuttu máli, hvaða stað sem er,
hvort sem er innanhúss eða utan.
Staðfesting á þátttöku þarf að hafa borist forstöðumanni Sjónlistamiðstöðvarinnar fyrir 1. mars 2012, ásamt
örstuttri lýsingu á hugmyndinni og hvaða staðsetningu viðkomandi listamaður hefur í huga. Verður spennandi að sjá hvernig þessu verkefni
vindur fram og hver afraksturinn verður næsta sumar.
Formleg opnun sýningarinnar er 23. júní og verður hún hluti af Listasumri á Akureyri. Nánari upplýsingar um verkefnið veitir
forstöðumaður Sjónlistamiðstöðvarinnar, Hannes Sigurðsson í síma 899-3386 eða í tölvupósti hannes@art.is.
Dagskrá 150 ára afmælis Akureyrarbæjar.