Nokkur bílastæði í miðbæ Akureyrar hafa fengið nýtt og tímabundið hlutverk. Þeim hefur verið breytt í lítinn almenningsgarð og reiðhjólastæðum komið upp. Ástæðan er svokallað stæðaæði eða Park(ing) Day, sem er haldið í tilefni af evrópsku samgönguvikunni.
Samgönguvikan stendur nú sem hæst á Akureyri. Þemað í ár er „Göngum'etta“ og eru íbúar sérstaklega hvattir til að nota vistvæna og heilsueflandi samgöngumáta í þessari viku. Stæðin í göngugötunni verða í þessum búningi fram yfir helgi, en samgönguviku lýkur á sunnudaginn.
Tíðari ferðir og afþreying í strætó
Á sunnudaginn er „bíllausi dagurinn“ á Akureyri. Þann dag er markmiðið að sem flestir skilji bílinn sinn eftir heima og noti frekar almenningssamgöngur. Strætisvagni verður bætt við og ferðum fjölgað. Strætisvagnar munu fara leið 6 á 30 mínútna fresti. Annar vagninn fer frá miðbæ 18 mínútur yfir heila tímann og hinn 48 mínútur yfir.
Á Akureyri er alltaf frítt í strætó en þennan dag verður farþegum boðið upp á bækur og blöð til lestrar í almenningsvögnum. Tilvalið að ferðast um bæinn okkar án þess að hafa áhyggjum af bílastæðum eða eldsneytiskostnaði.
Spennandi ljósmyndasamkeppni
Við minnum einnig á ljósmyndasamkeppni í tilefni af samgönguvikunni. Til að eiga möguleika á glæsilegum verðlaunum þarf að taka mynd sem tengist þema samgönguvikunnar, deila á Facebook eða Instagram með myllumerkinu #GöngumAkureyri og senda myndina á netfangið samak@akureyri.is.
