Fallegur sumardagur á Akureyri. Margir sinna fegrun og umhirðu bæjarins á sumrin. Mynd: María Helena Tryggvadóttir.
Á hverju ári er ráðið fjölmargt sumarstarfsfólk hjá Akureyrarbæ og er engin undantekning gerð í ár. Störfin tilheyra öllum sviðum bæjarins og eru afar fjölbreytt, en flestir sem eru ráðnir sinna fegrun bæjarins, umönnun og búsetuþjónustu.
Fjöldi spennandi sumarstarfa hefur nú verið auglýstur á heimasíðu Akureyrarbæjar og eiga nokkrar auglýsingar eftir að bætast við.
Óskað er meðal annars eftir góðu fólki til að vinna í Sundlaug Akureyrar, keyra strætisvagna eða sinna umönnun á Öldrunarheimilum Akureyrar. Þá er einnig auglýst eftir stjórnendum í Vinnuskóla Akureyrar og starfsfólki í leikskóla, svo dæmi séu nefnd.
Smelltu hér til að skoða nánar auglýst störf hjá sveitarfélaginu.
Reiknað er með að sambærilegur fjöldi verði ráðinn til sumarstarfa og í fyrra, en þá voru samtals ráðnir 960 sumarstarfsmenn. Eru þá meðtalin sumarstörf Vinnuskólans sem oft er mikilvægt fyrsta skref ungmenna á vinnumarkaði. Þá eru býsna margir sem nýta sér atvinnuátak bæjarins fyrir 18-25 ára skólafólk. Flestir sumarstarfsmenn eru hjá Öldrunarheimilum Akureyrar.