Söguskiltið um Búðargil.
Í dag, laugardaginn 1. september kl. 10.00, verða sex ný söguskilti afhjúpuð í hjarta gömlu Akureyrar og sérstök athöfn fer fram
við áningarstaðinn á móts við Tuliniusarhús (við bílastæðin norðan Brynju). Sagt verður frá tilurð skiltanna, efnisvali
og umfangi.
Skiltin eru gerð í tilefni 150 ára afmælis Akureyrarkaupstaðar og eru gjöf Norðurorku í tilefni afmælisins. Minjasafnið, Akureyrarstofa
og Framkvæmdadeild Akureyrar hafa staðið að gerð skiltanna. Skiltin gera grein fyrir sögu húsa og staðhátta í máli og myndum, alla
leið frá Ráðhústorginu í miðbæ Akureyrar og inn í Innbæinn.
Skiltin verða öll með smartkóða (QR- kóða) sem auðvelda þeim sem eru með snjallsíma að sækja ýmis konar
viðbótarfróðleik um skiltin, auk þess sem hægt er að nálgast mynd af skiltunum á heimasíðu Akureyrarbæjar, visitakureyri.is.