Skólastarf fer vel af stað

Líf og fjör á skólalóð Brekkuskóla. Mynd: María H. Tryggvadóttir.
Líf og fjör á skólalóð Brekkuskóla. Mynd: María H. Tryggvadóttir.

Skólastarf er hafið að nýju eftir sumarfrí. Ríflega 3.600 börn verða við nám í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar í vetur sem er svipaður fjöldi og undanfarin ár.

Í grunnskólum bæjarins eru nemendur um 2.700 og um 930 í leikskólum. Fjölmennastur er Brekkuskóli með um 500 nemendur en Hríseyjarskóli er fámennastur með 15 börn.

Staðan í skólamálum er heilt yfir góð og fer starfið vel af stað. Mönnun er sem fyrr mjög góð og er yfirgnæfandi meirihluti starfsfólks í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar fagmenntaður.

Almennt eru börn innrituð í leikskóla einu sinni á ári, að hausti. Öllum börnum 16 mánaða og eldri var boðin leikskólavist að þessu sinni og eru engir biðlistar. Framkvæmdir við nýjan leikskóla við Glerárskóla, Klappir, standa sem hæst og með tilkomu hans er stefnt að því að bjóða börnum á Akureyri leikskólavist við 12 mánaða aldur. 

Miklar endurbætur standa yfir á húsnæði Lundarskóla og þar af leiðandi munu 175 nemendur sækja skóla í Rósenborg í vetur. Mikil áhersla var lögð á það í sumar að gera nauðsynlegar breytingar og lagfæringar á húsnæðinu þannig að starfið gæti farið af stað með eðlilegum hætti í Rósenborg. Það hefur gengið eftir og er framkvæmdum þar að ljúka.

Vegna fjölgunar nemenda á svæðinu í kringum Brekkuskóla og Rósenborg hefur verið gripið til aðgerða til að auka umferðaröryggi sem má lesa nánar um hér. Að sjálfsögðu eru nemendur í grunnskólum hvattir til að ganga eða hjóla í skólann.

Skólastarf á Akureyri er að mestu með eðlilegum hætti þótt vissulega sé lögð aukin áhersla á sóttvarnir vegna Covid-19. Foreldrar og nemendur fá nánari upplýsingar um fyrirkomulag og sóttvarnarráðstafanir frá hverjum skóla fyrir sig enda eru aðstæður misjafnar. Stjórnendur og starfsfólk leik- og grunnskóla sýndi mikinn styrk og aðlögunarhæfni þegar faraldurinn var í hámarki fyrr á árinu og eru allir tilbúnir að bregðast við aðstæðum sem kunna að breytast hratt.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan