Skíðavertíðin að hefjast

Snjóframleiðsla í Hlíðarfjalli.
Snjóframleiðsla í Hlíðarfjalli.

Ákveðið hefur verið að opna skíðasvæðið í Hlíðarfjalli næsta laugardagsmorgun kl. 10.00. Þrjár lyftur verða þá opnar, Fjarkinn, Auður og Töfrateppið fyrir börnin. Fljótlega kemur síðan í ljós hvenær hægt verður að troða og opna efra svæðið fyrir ofan Strýtu.

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður skíðasvæðisins, segir að nú kyngi niður snjó í Fjallinu en mest munar þó um að snjóframleiðslan hefur gengið prýðilega síðustu daga og mjög gott undirlag er komið í brautirnar.

Vetrarkort í Hlíðarfjall eru nú til sölu á Glerártorgi og hefur það mælst vel fyrir, enda þægilegt að geta mætt í Fjallið með kortin á reiðum höndum. Áfram verður boðið upp á þrjár skiptihelgar við hin skíðasvæðin í Eyjafirði: á Dalvík og Siglufirði og nú í vetur bætist skíðasvæðið í Tindastóli við Sauðárkrók einnig við. Þannig gefst vetrarkorthöfum kostur á að heimsækja einnig hin skíðasvæðin eina helgi í janúar, febrúar og mars, og bæta þannig enn frekar upplifun sína á vetrarævintýri við Eyjafjörð.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan