Frá Lystigarðinum í gær. Mynd: Auðunn Níelsson.
Í tilefni Afmælisvöku – 150 ára afmælishátíðar Akureyrar mun Vodafone í samstarfi við N4 senda út sérstaka
sjónvarpsstöð á hefðbundinni rás sjónvarpsstöðvarinnar N4. Þar gefst gestum Afmælisvöku tækifæri til að láta
ljós sitt skína með því að senda inn myndir og tíst í gegnum snjallsíma sína. Útsendingarnar hófust í gær og
halda áfram í allan dag en dagskráin verður endursýnd á morgun, sunnudag.
Sams konar sjónvarpsstöð var sett á laggirnar í fyrsta sinn hér á landi fyrir Menningarnótt í Reykjavík fyrir tveimur vikum og var
þátttaka framar vonum. Um 1.700 myndir voru sendar inn með merkingunni #menningarnótt og yfir 440 tíst send inn með sömu merkingu.
Á sjónvarpsstöðinni verður sent beint út frá stórtónleikum Afmælisvöku og flugeldasýningu
hátíðarinnar sem fram fara í kvöld auk myndskeiða sem sýna stemninguna á Akureyri.
Meginuppistaða útsendingarinnar verður aftur á móti myndir sem teknar verða með snjallsímaforritinu Instagram og merktar #akureyri og tíst af
samskiptamiðlinum Twitter einnig merkt #akureyri. Þannig geta allir notendur iPhone og Android snjallsíma eða iPad spjaldtölvna sent inn myndir með Instagram
og tekið þannig þátt í útsendingunni. Notendur Twitter geta með sama hætti komið að tísti í tíststraum
stöðvarinnar.
Instagram er eitt vinsælasta snjallsímaforrit sinnar tegundar en með því geta notendur tekið myndir og deilt þeim til vina á einfaldan hátt.
Twitter er einn vinsælasti samfélagsmiðill í heimi og notkun hans er stigvaxandi.
Rekstraraðilar á Akureyri eru hvattir til að stilla á stöðina svo gestir geti séð myndir sínar og annarra gesta á meðan á
viðburðum stendur. Hægt verður að ná stöðinni á hefðbundnum útsendingarrásum sjónvarpsstöðvarinnar N4, sem eru
rás 29 í Vodafone Sjónvarpi um ADSL og ljósleiðara, rás 15 með Digital Ísland myndlyklum á Akureyri og rás 6 á
sjónvarpsdreifikerfi Símans. Stöðin næst einnig um loftnet á Akureyri á rás 53, á rás 29 um örbylgjudreifikerfi Digital
Ísland á suðvesturhorninu og vefútsendingu má finna á vefnum n4.is.
Nöfn allra þeirra sem senda inn mynd með Instagram og birtist í sjónvarpi Afmælisvöku verður safnað saman í sérstakan
Afmælisvökupott. Eftir helgina verður dregið út eitt nafn sem hlýtur í vinning Samsung Galaxy S III snjallsíma í boði Vodafone.
Nánari upplýsingar og leiðbeiningar um hvernig sækja á Instagram og senda myndir inn á sjónvarpsstöðina má finna á vodafone.is og Facebook síðu Vodafone.