Í dag var tilkynnt hverjir eru tilnefndir til Sjónlistarorðunnar 2006. Athöfnin fór fram í framtíðarhúsnæði Listasafnsins á Akureyri og við sama tækifæri voru undiritaðir samningar milli allra samstarfs- og styrktaraðila Sjónlistar 2006.
Markmið verkefnisins er að veita verðlaun á sviði sjónlista og beina þannig sjónum að framúrskarandi framlagi myndlistarmanna og hönnuða starfandi á Íslandi og íslenskra sjónlistamanna erlendis, stuðla að aukinni þekkingu, áhuga og aðgengi almennings að sjónlistum og hvetja til faglegrar þekkingarsköpunar og bættra starfsmöguleika sjónlistamanna á Íslandi. Sex listamenn eða hópar listamanna sem starfa að jafnaði saman, hljóta tilnefningu á tveimur sviðum, myndlist og hönnun, fyrir framlag sitt til greinarinnar á tólf mánaða tímabili frá mars 2005. Allir hönnuðir og myndlistarmenn sem sýnt hafa verk sín á tímabilinu, eða kynnt þau með öðrum hætti, koma til greina við tilnefninguna.
Sýning á verkum þeirra sem hlutu tilnefningu í ár verður opnuð í Listasafninu á Akureyri á Akureyrarvöku 26. ágúst næstkomandi. Tveir úr þeirra hópi hljóta Sjónlistarorðuna 2006, auk peningaverðlauna að upphæð 2.000.000 kr. hvor. Verðlaunaafhendingin fer fram í Ketilhúsinu á Akureyri í september í beinni útsendingu Sjónvarpsins og verða tilnefndir listamenn kynntir til leiks með stuttum sjónvarpsþáttum þegar nær dregur hátíðinni. Einnig verður heiðursorða Sjónlistar veitt árlega og verður greint frá því hver hlýtur orðuna árið 2006 við afhendingu verðlaunanna. Í tengslum við hátíðina verður jafnframt efnt til málþings.
Sjónlist er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Forms Ísland – samtaka hönnuða og Sambands íslenskra myndlistarmanna. Stjórn Sjónlistar 2006 skipa: f.h. Akureyrarbæjar, Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar og formaður stjórnar, f.h. Forms Ísland – samtaka hönnuða, Jóhannes Þórðarson, arkítekt og deildarforseti hönnunar- og arkítektúrdeildar LHÍ og f.h. Sambands íslenskra myndlistarmanna, Bjarni Sigurbjörnsson, myndlistarmaður og stjórnarmaður SÍM.
Sjónlist 2006 nýtur stuðnings Menntamálaráðuneytisins og Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins. Aðalfyrirtækjabakhjarl Sjónlistar 2006 er Glitnir hf. Aðrir helstu fyrirtækjabakhjarlar Sjónlistar 2006 eru Inn fjárfesting ehf. og danska fyrirtækið Montana. Sjónlist 2006 er framkvæmd í samstarfi við Listasafnið á Akureyri og Sjónvarpið. Aðrir samstarfsaðilar eru Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar –CIA.is, Hönnunarvettvangur og Listaháskóli Íslands.
Tilnefndir til Sjónlistarorðunnar 2006 eru:
Myndlist:
- Hildur Bjarnadóttir fyrir yfirlitssýninguna Unraveled í Boise listasafninu í Boise, Idaho, Bandaríkjunum.
- Katrín Sigurðardóttir fyrir verkið High Plane III á sýningunni The Here and Now í The Renaissance Society í Chicago í Bandaríkjunum.
- Margrét H. Blöndal fyrir innsetninguna Anchor, strings, ballooning / rejoice inside out / pulled and parades / partly floating / bright, balancing / torn apart /buoyant á samsýningunni Buenos Dias Santiage – an exhibition as expedition í samtímalistasafninu í Santiago í Chile í lok ársins 2005.
Í dómnefnd á sviði myndlistar sitja:
- Margrét Elísabet Ólafsdóttir, fagurfræðingur og formaður dómnefndar, skipuð af Sambandi íslenskra myndlistarmanna,
- Ingólfur Arnarsson, prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, skipaður af Listaháskóla Íslands,
- Jón Proppé, heimspekingur, skipaður af Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, CIA.is.
Hönnun:
- Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, hönnuður, fyrir húsgögn í framleiðslulínunni –Inner Beauty- og húsgögn í línunni -FLAT pack “antiques”.
- Steinunn Sigurðardóttir, fatahönnuður, fyrir vor- og haustlínu sem hún hannaði fyrir vörumerkið STEINUNN.
- Margrét Harðardóttir og Steve Christer, arkítektar hjá Studio Granda, fyrir nýjan nemendagarð, rannsóknar- og frumkvöðlasetur Viðskiptaháskólans að Bifröst. Byggingin er annar áfangi framtíðarsýnar staðarins, sem einnig er unnin af stofunni.
Í dómnefnd á sviði hönnunar sitja:
- Ásrún Kristjánsdóttir, stjórnarmeðlimur Hönnunarvettvangs og formaður dómnefndar, skipuð af Hönnunarvettvangi,
- Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands, skipuð af Listaháskóla Íslands,
- Massimo Santanicchia, arkítekt, skipaður af Form Ísland – samtökum hönnuða.

Við undirritun samninga