Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hofi

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur tónleika í Hofi í kvöld, föstudagskvöld, kl. 19.30. Flutt verður ein vinsælasta sinfónía Peters Tchaikovsky, Sinfónía nr. 5, og Konsert nr. 1 í C-dúr eftir Haydn undir stjórn Ilans Volkovs. Einleikari á tónleikunum verður Bryndís Halla Gylfadóttir en hún er þekkt fyrir frábæra túlkun og glæsileika.

Tchaikovsky samdi Sinfóníu nr. 5 árið 1888 og stjórnaði frumflutningi hennar í St. Pétursborg síðar sama ár. Fjórir þættir sinfóníunnar eru tengdir saman með „örlagastefi“ sem liggur sem rauður þráður í gegnum verkið. Annar þátturinn skartar einni fegurstu laglínu hljómsveitarverka og sá þriðji byggir á dansstefi.

Konsert í C-dúr eftir Haydn fannst fyrir tilviljun árið 1961 í Þjóðskalasafninu í Prag. Sellóistinn Milan Sádlo frumflutti konsertinn 1962 sem hefur síðan öðlast sess sem einn helsti sellókonsert klassíska tímabilsins enda einkar haganlega saminn.

Bryndís Halla Gylfadóttir tók við stöðu leiðandi sellóleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands 1989. Hún  kemur reglulega fram sem einleikari hljómsveitarinnar og hefur m.a. flutt konserta eftir Dvorák, Shostakovich, Elgar og Haydn. Bryndís hefur komið fram víða um Evrópu og hlotið margar viðurkenningar fyrir frábæran leik og túlkun. Þess má geta að Bryndís hefur komið fram sem einleikari hjá Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og er einn af stofnendum Trio Nordica.

Ilan Volkov hljómsveitarstjóri hóf tónlistarnám ungur að árum og var aðeins 19 ára ráðinn aðstoðarstjórnandi Northern Sinfonia á Englandi. Eftir farsæl störf víða um heim tók hann við stöðu aðalstjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands í september 2011. Á meðal þeirra hljómsveita sem Volkov stýrir reglulega eru Fílharmóníuhljómsveitirnar í Ísrael, München og Rotterdam, Orchestra of the Age of Enlightenment, Sinfóníuhljómsveitin í Birmingham, Orchestre de Paris og Þjóðarhljómsveitin í Washington.

Tónleikarnir hefjast kl. 19.30 og nálgast má miða í miðasölu Hofs.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan