Síldarstúlka fær málið

Margrét Guðmundsdóttir.
Margrét Guðmundsdóttir.

Í erindi sínu í dag í AkureyrarAkademíunni kl. 17 ætlar Margrét Guðmundsdóttir sagnfræðingur að rjúfa skarð í þann þagnarmúr sem hlaðinn er um sögu verkakvenna. Erindi hennar nefnist "Síldarstúlka fær málið - Hversdagslíf söltunarstúlku á Hjalteyri sumarið 1915." Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð AkureyrarAkademíunnar veturinn 2011 til 2012. Allir eru velkomnir - heitt á könnunni.

Þætti verkakvenna í verðmætasköpun í sjávarútvegi er sjaldan gefinn verðugur gaumur, stundum mætti jafnvel ætla að saltfiskur og söltuð síld í tunnum væru dregin úr sjónum. Síldarsöltun er iðulega kennd við ævintýri. Rómantík, söngur, dans og harmonikutónar leika þar aðalhlutverkin. Hvernig kemur sú mynd heim og saman við raunveruleika hversdagsins í vinnslu á silfri hafsins? Sögur úr síldinni eru margar en sárafáar frásagnir kvenna hafa því miður ratað á prent.

Áheyrendum verður boðið að fylgja síldarstúlku Útgerðarfélagsins Kveldúlfs í Reykjavík norður til Hjalteyrar. Hugað verður að undirbúningi hennar fyrir vertíðina og ferðalagið. Litið verður inn um gættina á verbúðum verkakvenna á Hjalteyri og brugðið upp mynd af aðbúnaði þeirra og sambúð. Kostur síldarstúlkna og vinnufatnaður verður gaumgæfður og drepið á þvotta og þrifnað. Áhugasömum hlustendum verður að sjálfsögðu boðið að slást í för með verkakonum á söltunarplanið. Dagbækur Elku Björnsdóttur verkakonu í Reykjavík eru helsti leiðarvísir ferðarinnar en þær veita einstaka sýn á líf og strit síldarstúlkna í upphafi 20. aldar.

Dagskrá fyrirlestraraðarinnar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan