Síðasta vetrardag fagnaði Síðuskóli þeim áfanga að vera orðinn fullgildur SMT-skóli, fyrstur grunnskóla á Akureyri.
SMT-skóli felur í sér að skólinn hefur lokið við að innleiða aðferðir og vinnubrögð sem felast í SMT-skólafærni.
SMT-skólafærni miðar að því að byggja upp jákvæðan skólabrag þar sem nemendur fá stuðning til uppbyggjandi
samskipta.
Karl Frímannsson fræðslustjóri afhenti skólanum viðurkenningu og einnig fengu fulltrúar nemenda afhentan SMT-fána. Heimir Eggerz formaður
stjórnar FOKS, foreldra- og kennarafélags Síðuskóla, færði skólanum peningagjöf til að styrkja SMT-starfið í skólanum.
Einnig var haldið upp á að búið er að gefa meira en 15.000 hrósmiða í vetur.
Síðuskóli hóf haustið 2006 innleiðslu SMT skólafærni. Á heimasíðu skólans er fjallað um SMT og segir m.a.: "Markmið
SMT er að skapa gott andrúmsloft í skólum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Aðferðin leggur áherslu á leiðir til
að koma í veg fyrir og draga úr hegðunarvanda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, umbuna fyrir æskilega hegðun og
samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun."
Nemendur sem hafa góða félagsfærni sýna síður óæskilega hegðun, eiga auðveldara með að eignast vini og leysa farsællega
úr vandamálum og ágreiningsefnum. Gert er ráð fyrir að innleiðsla SMT skólafærni taki þrjú til fimm ár.
Einkunnarorð Síðuskóla eru ábyrgð, virðing og vinátta og veittar voru viðurkenningar í myndasamkeppni um skólann og nemendur
lásu frumsamin ljóð um ábyrgðina. Myndina sem vann í samkeppninni á Sigurður Orri Hjaltason 8. HF og verður myndin, sem ber heitið
"Undirbúningur lífsins" máluð á vegg í forstofu skólans. Einnig spiluðu þrír nemendur í fjórða bekk á
hljóðfæri og loks stigu þau Ármann Einarsson og Brogan Davidson á pall og skemmtu með dansi og tónlist og fengu allan skólann til að taka
þátt í dansinum. Eftir að SMT-fáninn hafði verið dreginn að húni var ávaxtaveisla í matsalnum.
Á vef Síðuskóla má sjá myndir frá hátíðinni.
Frétt af www.akureyrivikublad.is.