Talið frá vinstri: Hreinn Þór Hauksson, Matthías Rögnvaldsson, Jón Steindór Árnason, Helgi Gestsson, Þórgnýr Dýrfjörð og Stefán B. Sigurðsson.
Í dag skrifuðu fulltrúar Háskólans á Akureyri, Stefnu hugbúnaðarhúss, Tækifæris fjárfestingasjóðs og
Akureyrarstofu undir samstarfssamning um framkvæmd og þróun Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar á Akureyri. Samningurinn felur í sér samstarf til
næstu þriggja ára.
Atvinnu- og nýsköpunarhelgin á Akureyri hefur verið haldin undanfarin þrjú ár við góðan orðstír en henni er ætlað
að stuðla að nýsköpun fyrirtækja og einstaklinga á efnahagssvæði Akureyrar. Markmiðið er að gefa frumkvöðlum kost á
sérhæfðri ráðgjöf í þróun og markaðssetningu viðskiptahugmynda undir stjórn sérfræðinga.
Við tilefnið sagði Hreinn Þór Hauksson, verkefnastjóri atvinnumála Akureyrarbæjar: „Þáttur nýsköpunar og
frumkvöðlastarfs fyrir efnahagslega þróun, hvort sem er innan fyrirtækja eða meðal einstaklinga, er gríðarlega mikilvægur. Það er
nauðsynlegt að hlúa vel að slíkum þáttum og Atvinnu- og nýsköpunarhelgin á Akureyri er stór hluti af því. Auk
þeirra aðila sem undirrituðu samninginn hér í dag koma fjölmargir framsýnir einstaklingar og fyrirtæki á svæðinu að
framkvæmdinni bæði hvað varðar undirbúning og fjárhagslegan stuðning. Ég skynja mikinn áhuga innan bæjarfélagsins á
mikilvægi nýsköpunar og frumkvöðlastarfs og á eflingu atvinnuskapandi umhverfis. Þetta er stórt skref sem við stígum í dag og
því ber sannarlega að fagna.“