Samstarf í norðurslóðarannsóknum

Þriðjudaginn 22. maí tók Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, á móti gestum frá Pierre et Marie Curie University (UPMC). Við það tækifæri var skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf á milli háskólanna tveggja. Á þessu ári verður unnið að því að skilgreina nánar í hverju samstarfið felst og á hvaða sviðum en líklegt er að sjórinn og norðurslóðir verði þar fyrirferðarmiklar. Gert er ráð fyrir samstarfi í rannsóknarverkefnum og fjármögnun þeirra sem og fræðimanna – og nemendaskiptum.

The Pierre et Marie Curie University var stofnaður árið 1109 og er hluti af Sorbonne Háskólanum í Frakklandi. UPMC er staðsettur í París og hefur verið leiðandi í málefnum norðurslóða, ekki síst á sviði loftslagsbreytinga, þverfaglegra rannsókna á ferlum þeim tengdum og hnattrænum áhrifum.

Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, sagði við undirritunina að samningurinn á milli skólanna tveggja væri enn eitt mikilvægt skref í áframhaldandi þróun og uppbyggingu rannsókna og fræða á sviði málefna norðurslóða og muni styrkja og efla möguleika Háskólans á Akureyri og samstarfsaðila hans til þátttöku í alþjóðlegum verkefnum sem lúta að málefnum norðurslóða og þá um leið Íslands.

Meðfylgjandi er mynd frá undirrituninni en á henni eru Stefán B. Sigurðsson, rektor HA og Jean-Charles Pomerol, fráfarandi rektor UPMC.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan