Samherji kaupir hlut í Fjord Seafood ASA

 


Samið hefur verið um kaup Samherja hf. á eignarhlut í norska sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækinu Fjord Seafood ASA sem er eitt af stærstu fyrirtækjum á sínu sviði í heiminum. Samherji hf. kaupir um 2,6% hlut í Fjord Seafood í lokuðu hlutafjárútboði. Nafnverð hlutabréfanna er 11,2 milljónir norskra króna og kaupir Samherji hf. þau á genginu 2,5. Heildarfjárfesting Samherja í þessum viðskiptum er því 28 milljónir norskra króna eða um 320 milljónir íslenskra króna.  Jafnframt hefur Samherji gert víðtækan samstarfssamning við Fjord Seafood, sem m.a. tekur til samstarfs félaganna í fiskeldi og sölu sjávarafurða.

Samningur Samherja og Fjord Seafood tekur til fjögurra meginþátta:


 

  • Kaupa Samherja á um 2,6% hlut í Fjord Seafood fyrir um 320 milljónir ísl. króna og kaupréttar Fjord Seafood á allt að 50% hlut í fiskeldisstarfsemi Samherja hf.
  • Víðtæks samstarfs Samherja hf. og Fjord Seafood og þekkingarmiðlunar í fiskeldi, sem tryggir Samherja aðgang að þekkingar-, innkaupa- og söluneti hjá einu  stærsta fskeldis- og sölufyrirtæki sjávarafurða í heiminum.
  • Samstarfs fyrirtækjanna í markaðssetningu á ferskum bolfiski og laxi.
  • Samstarfs um þróun og þekkingarmiðlun í framleiðslu á fiskifóðri, auk þess sem Samherji hf. hefur rétt til afhendingar á fiskimjöli og lýsi á markaðsverði inn í fóðursamninga Fjord Seafood.

 

Starfsmenn Fjord Seafood út um allan heim eru á fjórða þúsund. Áætluð velta fyrirtækisins á árinu 2003 er 4 milljarðar norskra króna eða um 46 milljarðar íslenskra króna. Fyrirtækið annast alla þætti fiskeldis, allt frá klaki hrogna til dreifingar og markaðssetningar fullunninna afurða. Markaðsvirði Fjord Seafood er um 11 milljarðar ísl. króna. Auk umfangsmikillar starfsemi í Noregi rekur Fjord Seafood fiskeldisstöðvar í Chile, Bandaríkjunum og Skotlandi og er þar að auki víða með sölu- og markaðsskrifstofur. Heildarframleiðslugeta eldisstöðva fyrirtækisins á laxi er um 120 þúsund tonn á ári.


Fjord Seafood ASA er með höfuðstöðvar í Brönnöysund í Noregi. Fyrirtækið er þriðja stærsta fyrirtæki heims í laxeldi í dag, á síðasta ári var framleiðsla þess á laxfiskum 87 þúsund tonn. Á árinu 2002 var hlutdeild Fjord Seafood í heimsframleiðslu á Atlantshafslaxi um 10%.


Nánar á heimasíðu Samherja - www.samherji.is


Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan