Rafskútuleiga til Akureyrar

Rafhlaupahjól njóta síaukinna vinsælda. Ljósmynd af Facebook-síðu Hopp.
Rafhlaupahjól njóta síaukinna vinsælda. Ljósmynd af Facebook-síðu Hopp.

Akureyrarbær og fyrirtækið Hopp hafa gert þjónustusamning um stöðvalausa rafskútuleigu á Akureyri. Stefnt er að því að hefja starfsemi leigu með 65 rafskútum í apríl.

Markmið Akureyrarbæjar með þessu er að styrkja net almenningssamgangna og auðvelda íbúum og gestum að komast ferða sinna innanbæjar með umhverfisvænum hætti. Aðrar aðgerðir sveitarfélagsins í þessa veru, sem unnið er að um þessar mundir, eru til dæmis endurskoðun á leiðaneti Strætisvagna Akureyrar og uppbygging á aðlaðandi og skilvirku stígakerfi samkvæmt nýju skipulagi.

Rafskútur, öðru nafni rafhlaupahjól, hafa rutt sér hratt til rúms á höfuðborgarsvæðinu og hafa nokkrar hjólaleigur hafið þar starfsemi að undanförnu. Þetta er hluti af alþjóðlegri þróun í þéttbýli þar sem sífellt fleiri kjósa að deila samgöngutækjum og aukin áhersla er lögð á örflæði, samgöngur þar sem lítil rafvædd farartæki eru notuð til að komast stuttar vegalengdir á fljótlegan og einfaldan hátt.

Fyrirkomulag rafskútuleigunnar á Akureyri verður sambærilegt og þekkist í Reykjavík. Fólk notar smáforrit (app) til að finna næsta lausa hjól, aflæsir því, leggur af stað og skilar því svo aftur á svæðum þar sem það er heimilt. Fyrir þjónustuna greiðir notandi upphafsgjald og mínútugjald samkvæmt verðskrá fyrirtækisins. Nánari upplýsingar um þjónustuna og fyrirkomulagið á Akureyri verða birtar þegar nær dregur, en eins og áður sagði er stefnt að því að fyrstu hjólin verði komin í umferð fyrir lok apríl.

Forsvarsmenn fyrirtækisins óskuðu eftir viðræðum við bæinn um opnun rafskútuleigunnar sem skipulagsráð samþykkti í október síðastliðnum. Með samningnum, sem nú hefur verið undirritaður, heimilar sveitarfélagið þessa starfsemi og samþykkir að vinna að því ásamt fyrirtækinu að áhrif þjónustunnar verði sem jákvæðust.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan