Öskudagskrakkar í Hofi 2011.
Löng hefð er fyrir því á Akureyri að krakkar komi saman og slái köttinn úr tunnunni á öskudaginn. Það verður annars
vegar gert á flötinni fyrir framan Samkomuhúsið kl. 10.30 og hins vegar á Glerártorgi kl. 13.30.
Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar ætla Norðurorka og Leikfélag Akureyrar að leiða saman hesta sína og bjóða
krökkum í kattarslag á leikhúsflötinni kl. 10.30. Liðin sem slá tunnuna í sundur og slá köttinn úr henni fá hvort um sig
fjóra miða á Gulleyjuna. Í Samkomuhúsinu verður síðan tekið vel á móti öllum syngjandi kátum sjóræningjum og
landkröbbum. Krökkum verður boðið upp á svið til að syngja Öskudagssöngva og samkeppni verður um flottasta búninginn. Sá sem
vinnur búningasamkeppnina fær tvo miða á Gulleyjuna.
Á Glerártorgi verður húsið opnað kl. 9.00 og sungið þar í verslunum og á göngum til kl. 12.00. Frá kl.
12.30-13.00 verður verðlaunaafhending þar sem bæði einstaklingar og lið fá verðlaun fyrir besta sönginn og bestu búningana. Loks
verður kötturinn sleginn úr tunnunni kl. 13.30 og tunnukóngurinn krýndur.