Öskudagurinn á Akureyri

Öskudagskrakkar í Hofi 2011.
Öskudagskrakkar í Hofi 2011.

Löng hefð er fyrir því á Akureyri að krakkar komi saman og slái köttinn úr tunnunni á öskudaginn. Það verður annars vegar gert á flötinni fyrir framan Samkomuhúsið kl. 10.30 og hins vegar á Glerártorgi kl. 13.30.

Í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarkaupstaðar ætla Norðurorka og Leikfélag Akureyrar að leiða saman hesta sína og bjóða krökkum í kattarslag á leikhúsflötinni kl. 10.30. Liðin sem slá tunnuna í sundur og slá köttinn úr henni fá hvort um sig fjóra miða á Gulleyjuna. Í Samkomuhúsinu verður síðan tekið vel á móti öllum syngjandi kátum sjóræningjum og landkröbbum. Krökkum verður boðið upp á svið til að syngja Öskudagssöngva og samkeppni verður um flottasta búninginn. Sá sem vinnur búningasamkeppnina fær tvo miða á Gulleyjuna.

Á Glerártorgi verður húsið opnað kl. 9.00 og sungið þar í verslunum og á göngum til kl. 12.00. Frá kl. 12.30-13.00 verður verðlaunaafhending þar sem bæði einstaklingar og lið fá verðlaun fyrir besta sönginn og bestu búningana. Loks verður kötturinn sleginn úr tunnunni kl. 13.30 og tunnukóngurinn krýndur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan