Opið í Fjallinu

Mynd: Kristján Bergmann Tómasson.
Mynd: Kristján Bergmann Tómasson.

Sumaropnun í Hlíðarfjalli hefst á morgun, fimmtudaginn 15. júlí, og verður opið fjóra daga í viku til 5. september.

Tilvalið er fyrir útivistarfólk að taka sér far upp að Strýtuskála með Fjarkanum en þaðan er merkt gönguleið upp á brún Hlíðarfjalls. Hjólreiðafólk getur haft hjólin með sér í stólalyftuna en fjölmargar skemmtilegar hjóla- og gönguleiðir er að finna á svæðinu.

Frá brún Hlíðarfjalls má til dæmis ganga að Harðarvörðu, á Blátind, Bungu, Strýtu, Kistu eða upp að Vindheimajökli. Á góðviðrisdögum sér yfir til Mývatnssveitar og jafnvel Herðubreið blasir við ef skyggni er gott.

„Fjarkinn verður í gangi á fimmtudögum og föstudögum frá klukkan fimm til níu og á laugardögum frá tíu til sex og sunnudögum frá tíu til fjögur. Þetta er auðvitað frábært útivistarsvæði og um að gera að létta sér aðeins sporin með því að kaupa miða í Fjarkann. Ein ferð kostar 1.100 kr. fyrir fullorðna en 800 fyrir börn og svo er hægt að kaupa passsa sem gildir einn dag, helgarpassa og sumarpassa," segir Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli.

„Við höfum orðið vör við aukna aðsókn hjólreiðafólks að svæðinu á sumrin og þá sérstaklega fólks sem er á rafmagnshjólum. Fjallgöngur og utanvegahlaup njóta einnig vaxandi vinsælda og það fer ekki fram hjá okkur. Sumaropnunin mæltist vel fyrir í fyrra og ég held að fólk sé smám saman að uppgötva þá möguleika sem þetta svæði býður upp á, flottar gönguleiðir, margbreytilega náttúru og stórkostlega fjallasýn."

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan