Óður til Bellini

Sunnudaginn 10. febrúar gefst unnendum söngs og klassískrar tónlistar tækifæri til að njóta óperusýningar í Hofi þegar fluttir verða valdir þættir úr þekktustu óperum ítalska tónskáldsins Vincenzos Bellinis. Þessar óperur hafa orð á sér fyrir að vera glæsilegar, aðgengilegar og auðskiljanlegar. Óperurnar fjalla um ungar ástir, afbrýði, svik og pretti þar sem allt fer vel að lokum og elskendur ná að eigast. Margir leggja hönd á plóginn svo af þessari metnaðarfullu uppsetningu verði. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, klassísk söngdeild Tónlistarskólans á Akureyri og óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz sameina krafta sína en æfingar hafa nú staðið yfir í nokkurn tíma.

Samstarf við aðra tónlistarflytjendur nær og fjær hefur löngum verið mikilvægur þáttur í starfi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og nú er unnið með Tónlistarskólanum á Akureyri og Söngskóla Sigurðar Demetz. Svona samstarf gerir söngnemendum kleift að spreyta sig í verkefnum sem annars hefðu ekki fundið sér farveg og stuðlar að aukinni fjölbreytni í tónlistarframboði á Norðurlandi. Verkefnið er lærdómsríkt fyrir tónleikahaldara á Akureyri og ef vel tekst til standa eftir öflugri listamenn og ánægðir tónleikagestir.

Þetta verður í fyrsta sinn sem öll hljómsveitargryfjan í Hofi verður notuð. Hún er ekki fullkláruð og því er þetta tilraunaverkefni að hálfu SN en reynslan af því á eftir að nýtast hljómsveitinni og öðrum við notkun við óperu- og ballettsýningar síðar. Miklar vonir eru bundnar við gryfjuna enda er verið að nýta aðstöðu í húsinu til fulls og auka þannig enn frekar við möguleika hljómsveitarinnar sem hefur vaxið jafnt og þétt síðan hún flutti í Hof.

Nánari upplýsingar og miðasala.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan