Nýtt aðstöðuhús afhent Nökkva

Nýtt og glæsilegt aðstöðuhús hefur verið afhent Siglingaklúbbnum Nökkva og er framkvæmdum þar með að mestu lokið og húsið tilbúið til notkunar, þótt einhver smávægilegur frágangur sé eftir.

Framkvæmdir hafa gengið mjög vel og samkvæmt áætlun, en umsamin verklok voru 15. júlí.

„Hugsað stórt og vandað til verks“

Sigurgeir Svavarsson verktaki sem annaðist framkvæmdina afhenti Tryggva Jóhanni Heimissyni, formanni Nökkva, lyklana að húsinu á föstudag.

Í tilkynningu á vef félagsins segir að þetta sé „stór dagur fyrir Nökkva enda búið að bíða lengi eftir góðri aðstöðu fyrir siglinga-, kajak-, og róðrafólk og annað sjósportáhugafólk. Stjórn Nökkva vill þakka verktökum, hönnuðum, starfsfólki Akureyrarbæjar og bæjarfulltrúum sem hafa gert þetta að veruleika. Hér er hugsað stórt og vandað til verks og óhætt að segja að allir sem að þessu koma geti verið stoltir af framkvæmdinni.“

Fyrsta flokks aðstaða

Húsið eru rúmir 400 fermetrar að gólffleti. Stærstur hluti þess er bátaskýli með góðri aðstöðu til viðhalds og endurbóta á bátum. Í húsinu eru einnig fyrsta flokks búningsklefar með sturtuaðstöðu og þurrkherbergi fyrir blautbúninga. Á efri hæð er félagsaðstaða, þaðan sem hægt er að ganga út á útsýnissvalir sem tengjast með stigum til tveggja átta.

Uppbygging á félagssvæði Nökkva var fyrsta atriðið á lista í skýrslu um uppbyggingu íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar og forgangsröðun til ársins 2035 sem bæjarstjórn samþykkti í fyrra. Afar ánægjulegt er að verkefnið sé í höfn, enda gjörbreytir það aðstöðu siglingafólks og annarra sem stunda sjósport á Akureyri, auk þess húsið og umhverfi þess er á áberandi stað í bænum og er glæsilegur hluti af bæjarmyndinni. 

Stefnt er að því að halda formlega vígsluathöfn áður en langt um líður.

 

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan