Framkvæmdir eru að hefjast við hið nýja Móahverfi nyrst í bænum. Í næstu viku verður hafist handa við lagnavinnu á vegum Norðurorku um leið og undirbúningur að gatnagerð hefst. Af þeim sökum verður lokað fyrir umferð ökutækja, hjólandi og gangandi, um nyrsta hluta Borgarbrautar sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Íbúar í næsta nágrenni þurfa því að fara aðrar götur til að komast til síns heima. Búast má við að þessi kafli Borgarbrautar verði lokaður í talsverðan tíma meðan á uppbyggingu í Móahverfi stendur.
Nánari fréttir af fyrirhuguðum framkvæmdum og lokunum verða birtar í næstu viku á heimasíðu sveitarfélagsins og þá verður einnig birt slóð þar sem íbúum og öðrum gefst kostur á að skrá sig á póstlista sem notaður verður til að koma vikulegum upplýsingum um gang mála til þeirra sem þess óska.
Móahverfi er nýtt íbúðahverfi í norðvesturhluta Akureyrar þar sem gert er ráð fyrir að byggðar verði allt að 1.100 íbúðir á næstu árum.
Nánari upplýsingar um Móahverfi er að finna hér.