Frá Aðalfundinum föstudaginn 22. mars.
Aðalfundur Norðurorku hf. var haldinn föstudaginn 22. mars í Menningarhúsinu Hofi og var dagskrá í samræmi við samþykktir
félagsins.
Rekstur Norðurorku gekk vel á árinu 2012. Ársvelta samstæðunnar var rúmlega 2,7 milljarðar króna. Hagnaður ársins var 710
milljónir króna, eftir skatta og eigið fé tæplega 5,8 milljarðar króna. Á aðalfundinum var ákveðið að greiða 129
milljónir króna í arð til eigenda. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku, dótturfélagsins Fallorku ehf. og áhrifa
hlutdeildar félaganna Tengis hf. og Norak ehf. en rekstur þeirra allra gekk vel á árinu.
Hagnaður er nokkuð meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og skýrist það að mestu af tryggingabótum upp á 205 milljónir
króna sem dótturfélagið Fallorka fékk greiddar vegna hamfaratjóns á virkjunum félagsins í Djúpadal árið 2006.
Kostnaður vegna uppbyggingarinnar eftir tjónið hefur verið gjaldfært á rekstur félagsins á liðnum árum frá tjóni.
Eigið fé samstæðunnar er eins og áður segir tæpir 5,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 60%. Norðurorka greiddi niður lán
á liðnu áru um rúmar 500 milljónir króna sem er nokkuð meira en undanfarin ár. Veltufé frá rekstri var tæplega 1.100
milljónir króna og handbært fé í árslok 715 milljónir króna. Langtímaskuldir voru í árslok tæplega 3,2 milljarðar
króna og höfðu lækkað um 320 milljónir króna milli ára að teknu tilliti til verðbreytinga og gengismunar innan ársins.
Fjárfesting Norðurorku í kerfum og nýframkvæmdum voru um 296 milljónir króna og eru áætlaðar um 690 milljónir króna
í ár sem skýrist að stórum hluta af metanverkefni félagsins. Til lengri tíma litið hefur fjárfesting í kerfum og
nýframkvæmdum verið aukin í ljósi sterkrar stöðu en venjubundin fjárfestingaþörf er áætluð rúmlega 300
milljónir króna á ári.
Í takt við markaða stefnu stjórnar njóta viðskiptavinir góðrar afkomu og breytingar á verðskrá því verulega innan
hækkunar á vísitölu milli ára. Norðurorka stendur mjög vel að vígi að þessu leyti og má nefna að raunverð
raforkudreifingar hefur farið lækkandi og er það lægsta á landinu. Þá hefur Norðurorka náð þeim árangri að verð heita
vatnsins hefur lækkað mjög undangengin ár og nú liggur fyrir sú ánægjulega niðurstaða að meðalnotkun viðskiptavina á
Akureyri er ódýrari en hjá veitum á suðvestur horni landsins.
Norðurorka er sterkt félag og hefur grunn til að taka áföllum sem í þessari grein geta verið nokkur. Þá er félagið betur
í stakk búið til áframhaldandi rannsókna varðandi vatnsöflun og til að mæta framtíðarþörf viðskiptavina. Ljóst er
að eigendur og starfsfólk geta verið stolt af góðu fyrirtæki. Verð á þjónustu og vörum fyrirtækisins skiptir almenning miklu og er
einn af þeim þáttum sem ráða íbúaþróun sem og tækifærum viðskipatvina okkar. Góð afkoma félagsins skilar
sér eins og áður segir til viðskiptavina og undirstrikar þannig tengslin við eigendur.
Í stjórn Norðurorku voru kjörin Ásdís Elva Rögnvaldsdóttir, Edward Hákon Huijbens, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Halla Björk
Reynisdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson.
Í varastjórn voru kjörnir Helgi Snæbjarnarson, Inda Björk Gunnarsdóttir, Kristín Sigfúsdóttir og Sigurður Hermannsson og
Víðir Benediktsson.
Ársskýrsla Norðurorku 2012