Nonni, Manni og Júlli smaladrengur hittast í Nonnahúsi

Fjölmargir gestir lögðu leið sína í Minjasafnið á Akureyri og Nonnahús um páskana. Að öllum öðrum gestum safnanna ólöstuðum var sérstaklega gaman þegar þeir Nonni, Manni og Júlli smaladrengur hittust á ný í Nonnahúsi á Akureyri.

Þetta voru þeir Garðar Thór Cortes (Nonni), Einar Örn Einarsson (Manni) og Jóhann G. Jóhannsson (Júlli smaladrengur) sem léku í sjónvarpsþáttunum Nonni og Manni. Þættirnir voru sýndir víða um heim fyrir 20 árum við miklar vinsældir. Þættirnir voru samevrópskt verkefni en Þjóðverjar áttu hvað stærstan þátt í framleiðslunni enda hafa Nonnabækurnar löngum verið vinsælar þar í landi. Eftir sýningu þáttanna bárust leikurunum ógrynnin öll af aðdáendabréfum og aðsókn í Nonnahús jókst svo um munaði.

Félagarnir hittust í Nonnahúsi í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá framleiðslu þáttanna og tók Jóhann G. Jóhannsson upp efni í útvarpsþátt sem sent var út föstudaginn langa.  Viðtölin má heyra í þættinum frá A til J á ruv.is.

Enn þann dag í dag eiga þættirnir um Nonna og Manna dygga aðdáendur og mikið verið spurt um þá. Þættirnir eru fáanlegir á DVD á þýsku en starfsfólk Minjasafnsins, Zontaklúbbur Akureyrar, sem til fjölda margra ára rak Nonnahús, og aðrir dyggir aðdáendur Jóns Sveinssonar skora á sjónvarpið að endursýna þessa skemmtilegu þætti.

 Nonni, Manni og Júlli Smaladrengur

Garðar Thór Cortes (Nonni), Einar Örn Einarsson (Manni) og Jóhann G. Jóhannsson (Júlli smaladrengur) sem léku í sjónvarpsþáttunum Nonni og Manni. Myndin var tekin í Nonnahúsi við þetta skemmtilega tilefni.



Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan