Nemendur á ferð og flugi. Mynd af heimasíðu Hríseyjarskóla.
Nemendur í 6.-10. bekk Hríseyjarskóla hafa undanfarin þrjú ár tekið þátt í Erasmus+ verkefninu Islands Schools ásamt Háskólanum á Akureyri og öðrum menntastofnunum í Hollandi, Grikklandi, Skotlandi og á Spáni.
Tilgangur verkefnisins er að tengja litla eyjaskóla um alla Evrópu saman og finna í sameiningu leiðir til nýsköpunar og leita lausna á vandamálum eyjasamfélaga og skapa um leið spennandi námstækifæri. Hríseyjarskóli hefur unnið náið með grunnskólanum De Jutter sem er á hollensku eyjunni Vlieland, á síðasta skólaári voru unnin verkefni um plastefni í hafi og komu hollensku nemendurnir ásamt kennurum sínum í heimsókn til Hríseyjar í maí 2022.
Núna í mars hófst 8 vikna samvinna milli skólanna og var sjálfbær ferðaþjónusta tekin fyrir. Hafa nemendur fræðst um sjálfbærni og unnið fjölbreytt verkefni með hollenska skólanum. Hápunktur verkefnisins var svo þegar Hríseyjarskóli heimsótti hollenska skólann 8.-10. maí sem var jafnframt lokaáfangi verkefnisins hvað nemendur varðar.
Sjá nánar í frétt á vef Hríseyjarskóla.
Ýmsar forvitnilegar upplýsingar er einnig að finna Facebook síðu skólans.