Mynd: Þórgnýr Dýrfjörð.
Hjá Akureyrarbæ er búið er að afgreiða allar umsóknir um leikskólapláss barna sem bárust áður en umsóknarfrestur rann út 15. febrúar sl. Jafnframt er búið að afgreiða stærstan hluta þeirra umsókna sem barst eftir að umsóknarfrestur rann út.
Aðeins örfá börn, fædd 2021 eða fyrr, eru eftir á biðlista eftir leikskólaplássum á Akureyri fyrir haustið 2022. Þar er um að ræða börn foreldra sem nýlega hafa flutt eða eru að flytja til Akureyrar. Tekið skal fram að innritunaraldur í leikskólana fyrir haustið 2022 miðast við að börn hafi náð 12 mánaða aldri 31. ágúst 2022.
Sesselja Sigurðardóttir leikskólaráðgjafi hjá Akureyrarbæ segir að helstu ástæður þess að ekki hefur ennþá verið hægt að verða við öllum leikskólaumsóknum sé sú að fleiri barnafjölskyldur hafi nýlega flutt til bæjarins en í burtu.
„Venjulega helst fjöldi brottfluttra og aðfluttra barna nokkurn veginn í hendur en núna eru aðflutt leikskólabörn heldur fleiri en þau sem fluttu í burtu. Þessi fjölgun barnafólks í bænum er að sjálfsögðu mjög ánægjuleg og vonandi tekst okkur innan tíðar að finna farsæla lausn fyrir þessi fáu börn sem enn hafa ekki fengið pláss. Fyrir foreldra barna yngri en 12 mánaða, léttir það einnig stöðuna að nú er dagforeldrum að fjölga aftur og verið er að vinna í umsóknum um ný daggæsluleyfi,“ segir Sesselja Sigurðardóttir.