Átaki um nágrannavörslu var ýtt úr vör á Akureyri í gær. Það voru íbúar Beykilundar sem riðu á vaðið undir forystu Sævars Helgasonar, eins af íbúum götunnar. Að loknum stuttum kynningarfundi var fest upp skilti á horni Beykilundar sem sýnir að virk nágrannavarsla er í götunni. Átakið er unnið í samvinnu Akureyrarbæjar og Sjóvár.
Sjóvá gefur út leiðbeiningar fyrir þá sem vilja skipuleggja nágrannavörslu og býður einnig til námskeiðs þar sem kenndar verða þær aðferðir við nágrannavörslu sem þykja hafa heppnast best. Í leiðbeiningunum má sjá hvernig lágmarka má hættu á innbrotum og skemmdarverkum. Þátttakendur í nágrannavörslunni fá m.a. gátlista sem auðvelda þeim að fara yfir heimili sitt til að kanna hvort það er öruggt og hvaða atriði þarf að laga. Einnig fylgja leiðbeiningar um öryggi bílsins, ferðavagna, reiðhjóla, mótorhjóla og sumarhúsa.
„Það er áratuga reynsla af skipulagðri nágrannavörslu víða um heim og við viljum leggja okkar af mörkum til þess að festa virka nágrannavörslu í sessi hér á landi. Okkar framlag er handbók með ítarlegum leiðbeiningum ásamt námskeiðum og aðgengi að sérfræðingum á sviði forvarna. Framhaldið er síðan í höndum íbúanna sjálfra,“ segir Sigurjón Andrésson, markaðsstjóri Sjóvár.
„Einn af kostunum við að búa á Akureyri hefur ævinlega verið að þar býr fólk við mikið öryggi og stafar lítil hætta af glæpum. Nágrannavarslan er liður í að tryggja að svo verði áfram. Þannig stuðlum við líka að samkennd meðal íbúanna og virkjum þá í því að gera góðan bæ ennþá betri, “segir Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri.
Þeir sem hafa áhuga á að koma nágrannavörslu á í götunni sinni eða heilu hverfi geta kynnt sér málið á www.sjova.is eða haft samband við Dagnýju Harðardóttur í síma 460 1022 (dagny@akureyri.is).

Fyrsta skiltið var fest upp við Beykilund. Á myndinni eru frá vinstri: Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn, Sævar Helgason, íbúi við götuna, Sigrún Björk Jakobsdóttir, forseti bæjarstjórnar og Jón Birgir Guðmundsson, útibússtjóri Sjóvár.