Mozartveisla á Akureyrarvöku

Frá æfingu. Mynd: Daníel Starrason.
Frá æfingu. Mynd: Daníel Starrason.

Nýtt tónleikaár Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands er í þann mund að hefjast. Það hefst á Mozartveislu á fjölþjóðlegri Akureyrarvöku föstudagskvöldið 30. ágúst. SN leikur undir stjórn þýska hljómsveitarstjórans Wolfgangs Trommers og ungverski fiðluleikarinn Zsuzsa Debre stígur á svið. Þau eiga bæði farsælan og glæsilegan feril að baki um allan heim og koma nú í fyrsta sinn fram á Íslandi.

Tónlist Wolfgang Amadeus Mozarts (1756-1791), eins þekktasta og vinsælasta tónskálds í klassískri tónlistarsögu, spannar allan tilfinningaskalann, allt frá léttleika og glaðværð til djúprar ástríðu og glæsileika. Efnisskrá Mozartveislunnar snertir alla þessa þætti en flutt verða: Eine kleine Nachtmusik, Fiðlukonsert nr. 4 og Sinfónía nr. 36. Áhorfendur mega því búast við mögnuðum tónleikum.

Ungverski fiðluleikarinn Zsuzsa Debre hefur getið sér framúrskarandi orðspors fyrir fiðluleik sinn víða í Evrópu. Hún nam fiðluleik í heimalandi sínu, m.a. í  Franz Liszt tónlistarháskólanum í Búdapest auk þess að njóta einkakennslu virtra tónlistarkennara. Þar ber að nefna Tibor Varga, Sándor Végh og Dénes Zsigmondy. Zsuzsa Debre lauk einleikaraprófi 1989 með hæstu einkunn og hefur m.a. leikið með Fílharmoníuhljómsveit Ungverjalands og Sinfóníuhljómsveitinni í Düsseldorf. Hún er þekkt fyrir kraftmikinn flutning, þykir frumleg og býr yfir þori til að fara ótroðnar slóðir í tónlistarflutningi sínum. Sá hæfileiki ásamt heillandi útgeislun hefur gert hana mjög eftirsótta til samstarfs meðal samtímatónskálda auk þess sem hún hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir túlkun sína á Mozart.

Wolfgang Trommer hljómsveitarstjóri kemur frá Þýskalandi og á langan og farsælan feril að baki. Hann hefur starfað í ýmsum óperuhúsum í Þýskalandi og með fjölmörgum hljómsveitum víða um heim. Hann hefur m.a. stjórnað Fílharmoníuhljómsveitum Berlínar, Rómar og München, Sinfóníuhljómsveitinni í Monte Carlo og Sinfóníuhljómsveitinni Lamoureux í París. Wolfgang Trommer hefur einnig komið víða fram sem hljómsveitarstjórnandi í sjónvarpi, m.a. með sjónvarps-sinfóníuhljómsveitinni í Jóhannesarborg í Suður Afríku. Árið 1980 stofnaði Wolfgang „Düsseldorfer Ensemble“ með það að meginmarkmiði að frumflytja ný tónverk en Wolfgang Trommer hefur lagt metnað sinn í að ryðja brautina fyrir ný tónskáld. Frá árinu 2001 hefur hann starfað hjá Sinfóníuhljómsveitinni Platin-Scala í Þýskalandi.

Wolfgang Trommer er mikill Íslandsvinur. Hann fagnar því mjög að fá tækifæri á lífsferli sínum til að stjórna hljómsveit á Íslandi. Eða eins og hann orðar það sjálfur: „Það gleður mig óumræðilega að geta sameinað ást mína á hljómsveitarstjórn og ást mína á hinu fallega norðri.“

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hélt sína fyrstu tónleika 24. október 1993 og og fagnar því tuttugu ára afmæli sínu á þessu tónleikarári. Leiknar hafa verið á þessum árum 115 mismunandi efnisskrár en SN hefur leikið nánast allar tegundir klassískrar tónlistar frá barokk til nútímatónlistar auk rokks, jass og popps. Eitt helsta leiðarljós SN hefur verið að brúar bilið milli áheyrenda og flytjenda og lögð hefur verið sérstök áhersla að taka vel á móti tónleikagestum og skapa nánd m.a. með fræðslu um verkin sem leikin eru hverju sinni.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan