Bæjarstjórn Akureyrarbæjar leggur áherslu á að tekið verði tillit til byggðasjónarmiða þegar háskólaumhverfi Íslands er til skoðunar. Mikilvægt sé að hlúa vel að Háskólanum á Akureyri þannig að hann geti sinnt hlutverki sínu.
Bæjarstjórn ræddi í gær um Grænbók um fjárveitingar til háskóla sem hefur verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Í grænbókinni er gerð grein fyrir núverandi fjárveitingakerfi, möguleikum við hönnun á nýju kerfi og settar fram lykilspurningar til að efla umræðu um stefnu um háskóla og hvaða fyrirkomulag fjárveitinga styðji best við innleiðingu á slíkri stefnu.
Í umsögn um grænbókina sem Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri sendi fyrir hönd Akureyrarbæjar er meðal annars fjallað um mikilvægi þess að stjórnvöld tryggi að minni háskólar haldi sérstöðu sinni og frekar verði horft til aðgerða sem efla starfsemina heldur en að veikja rekstrargrundvöll þeirra.
Nemendum í háskólakerfinu í heild hefur fækkað frá árinu 2013, en á sama tíma hefur fjölgað verulega í Háskólanum á Akureyri. „Þessi aukning hefði orðið mun meiri ef ekki hefði verið gripið til þeirra aðgerða [hertar aðgangstakmarkanir] sem HA hefur notað síðastliðin þrjú ár og munu verða enn harðari fyrir haustið 2020, þar sem fjárveitingar til skólans hafa ekki verið í samræmi við þá miklu fjölgun nemenda sem sækja þar um nám,“ segir í umsögninni. Þótt aukin samkeppni um námspláss geti verið jákvæð, þá gangi þessi þróun algerlega gegn upprunalegum hugmyndum um stofnun Háskólans á Akureyri „þar sem markmiðið var að auka aðgengi að háskólanámi, sérstaklega fyrir fólk utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir í umsögninni.
Bókun bæjarstjórnar á fundinum í gær:
Bæjarstjórn leggur áherslu á að tekið verði tillit til byggðasjónarmiða þegar háskólaumhverfi Íslands er til skoðunar, þá ekki síst hvort ástæða sé til að taka stefnumarkandi ákvörðun um að minnka bil menntunarstigs íbúa eftir landsvæðum. Fullyrða má að stofnun Háskólans á Akureyri hafi verið ein besta byggðaaðgerð sem farið hefur verið í. Mikilvægt er að hlúa vel að stofnuninni og að hún sé fjármögnuð þannig að hún nái að sinna hlutverki sínu.