Árið 2007 var sjálfseignastofnunin Gásakaupstaður stofnuð en að henni standa Akureyrarkaupstaður ásamt fleirum. Markmið Gásakaupstaðar er að stuðla að uppbyggingu fyrirhugaðs ferðamannastaðar á Gásum og eru Miðaldadagar hluti af því verkefni.
Miðaldadagar verða haldnir á Gásum núna um helgina, 20.-22. júlí. Hvernig væri að bregða sér til miðalda? Kannski til ársins 1318?
Gásir voru einn helsti verslunarstaður landsins á miðöldum. Árlega færist líf og fjör í verslunarstaðinn sem er endurskapaður á tilgátusvæði með tilheyrandi miðaldamannlífi. Hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 2003. Í fyrstu voru þar 3 konur í einu tjaldi en í ár verða þar yfir 100 Gásverjar við leik og störf og búist er við um 2.000 gestum.
Á Miðaldadögum gefst tækifæri til að upplifa fortíðina og verslunarstaðinn á blómatíma hans, hitta Gásverja, kynnast handverki og daglegum störfum, jafnvel fá að prófa eitt og annað. Boðið er upp á leiðsagnir um fornleifasvæðið og tilgátusvæðið, sögulega stundir með Vandræðaskáldum. Það er einstök stemning í fjörunni við Gásir þar sem tilgátubúðirnar eru. Það slær hins vegar reglulega í brýnu milli bardagamanna Rimmugígs og Gásverjar bregða á með leik og söng. Gapastokkurinn verður óspart nýttur fyrir glæpamanninn og gefst gestum tækifæri til að grýta hann með eggjum. Vonandi verður hann ekki fyrir Gása-lækninum sem helst vill aflima alla, nema að seiðkonan hafi aðvarað fólk.
Auk viðburðanna verða fjölmargir handverksmenn að störfum og tónlistarfólk gæðir svæðið lífi í takt við leikþætti og taktfastan slátt eldsmiða. Steinsmiður mætir á Gásir í fyrsta sinn sem mótar kléberg að fyrirmynd jarðfundninnaa gripa. Annálaritari Gása hanterar skinn og saman búa gestir og Gásverjar til nýjan kafla í annál þessarar skemmtilegu fortíðarhátíðar.
Nánari upplýsingar á www.gasir.is og á facebooksíðunni miðaldadagar á Gásum.