Markvissari þjónusta á nýju velferðarsviði

Töluvert hefur nú þegar áunnist með sameiningu tveggja sviða í eitt velferðarsvið Akureyrarbæjar. Aðgengi að þjónustunni hefur verið einfaldað og ýmis konar samlegðaráhrif komið í ljós í barna- og félagsþjónustu sem hafa í för með sér markvissari þjónustu.

Um síðustu áramót tóku gildi stjórnkerfisbreytingar hjá Akureyrarbæ sem höfðu í för með sér að nýtt velferðarsvið tók til starfa á grunni fyrrum búsetusviðs og fjölskyldusviðs. Við mótun nýja sviðsins var ákveðið að leggja til grundvallar notendamiðaða aðferðafræði með þeim megin markmiðum að bæta velferðarþjónustuna og gera hana aðgengilegri, meðal annars með því að koma í veg fyrir tvíverknað og göt í þjónustunni. Enn fremur að auka skilvirkni og nýta möguleika stafrænnar þróunar, efla þverfaglega teymisvinnu og ná fram hagræðingu.

Á fundi bæjarráðs í vikunni var umræða um þessar breytingar og lagt fram minnisblað Guðrúnar Sigurðardóttur, sviðsstjóra velferðarsviðs, um stöðuna.

Þótt innleiðing breytinganna og mótun sviðsins sé enn í fullum gangi þá gefa fyrstu vísbendingar góð fyrirheit um framhaldið. Sem dæmi má nefna að verið er að taka í notkun eitt rafrænt umsóknarform í þjónustugáttinni fyrir alla þjónustu sviðsins fyrir börn og barnafjölskyldur, hvort sem um er að ræða uppeldisráðgjöf, stuðningsfjölskyldu, skammtímaþjónustu eða annað, að frátöldum tilkynningum til barnaverndar sem fara með öðrum leiðum. Með aukinni samlegð hefur einnig tekist að nýta betur þá þekkingu og sérhæfingu sem starfsfólk sviðsins býr yfir.

Framundan er áframhaldandi vinna við að slípa frekar samstarf og teymisvinnu. Áhersla verður lögð á velferðartækni og þróun rafrænna lausna sem einfalda leið notenda að þjónustunni. „Jafnframt þarf að leitast við að finna hagkvæmar leiðir í veitingu þjónustunnar sem bitna þó ekki á gæðunum. Velferðarþjónustan á Íslandi er á fleygiferð varðandi þróun og ný verkefni. Velferðarsvið Akureyrarbæjar býr sig undir að geta sinnt þeim með framsækni og gæði að leiðarljósi,“ segir í minnisblaði Guðrúnar.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan