Frá jólatrésskemmtun á Ráðhústorgi.
Aðventuævintýri á Akureyri hefst laugardaginn 1. desember þegar ljósin verða tendruð á jólatrénu á
Ráðhústorgi en það er gjöf frá Randers, vinabæ Akureyrar í Danmörku. Dagskráin hefst klukkan 14.45 þegar Lúðrasveit
Akureyrar leikur undir stjórn Alberto Porro Carmona. Lúðrasveitin er eitt afmælisbörnum ársins en hún fagnar nú 70 ára afmæli
sínu.
Leikararnir Einar Aðalsteinsson og Aðalbjörg Árnadóttir frá Leikfélagi Akureyrar taka svo við í hlutverkum sínum úr
jólaleikritinu "Ef ég væri jólasveinn" sem Leikfélagið sýnir þessa dagana. Þau kynna dagskrána og syngja með krökkunum.
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri flytur ávarp og Helgi Jóhannesson konsúll Dana á Akureyri afhendir bæjarbúum
jólatréð. Það er svo hinn sjö ára gamli Emil Lund Ástvaldsson sem sér um að tendra jólaljósin. Barnakór
Glerárkirkju syngur nokkur jólalög undir stjórn Rósu Ingibjargar Tómasdóttur og síðast ekki síst mæta á sviðið
jólasveinarnir Kjötkrókur, Kertasníkir og Hurðaskellir. Þeir félagar syngja og tralla með börnunum og gefa epli frá Nettó. Við
þetta tækifæri mun Sundfélagið Óðinn selja heitt kakó og smákökur, Norðurport verður með jólamarkað á
Ráðhústorgi frá klukkan 13-16 og hjartað í Vaðlaheiðinni mun aftur byrja að slá.
Þennan fyrsta dag Aðventuævintýris verður fjöldi annarra viðburða og má nefna Fullveldishátíð Háskólans á
Akureyri, fyrsti glugginn á jóladagatali Menningarhússins Hofs og Myndlistarskólans á Akureyri verður opnaður, ljósmyndasýningarnar
Aðventa á fjöllum og Ferðalangar á fjöllum verður opnuð í Ketilhúsinu á ljósmyndarsýningunni, jólamarkaður
Hæfingastöðvarinnar, danssýning Önnu Richards og Camilo í Rýminu, Aðventuveisla Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Hofi,
tónleikar með Kiryama Family á Græna hattinum, Jólagjafir liðins tíma verða til sýnis á Leikfangasýningunni í
Friðbjarnarhúsi - svo ekki sé nú minnst á jólastrætó sem mun keyra um götur Akureyrar á Aðventunni.
Hægt er að nálgast dagskrá Aðventuævintýris á www.visitakureyri.is.