Nýjar leikskóladeildir hafa verið opnaðar við Oddeyrarskóla og Síðuskóla.
Nú er leikskólastarfið hafið á ný eftir sumarlokanir í leikskólum Akureyrarbæjar. Fjöldi leikskólabarna á Akureyri verður 1.030 þegar innritun er lokið, en 282 ný börn eru að hefja aðlögun í skólunum. Af þessum hópi eru 135 börn fædd árið 2022, 111 börn fædd 2021 og 34 eldri börn. Einnig voru 64 umsóknir afgreiddar um flutning barna milli leikskóla.
Talsverðar endurbætur hafa verið unnar í nokkrum af leikskólum bæjarins í sumar, t.a.m. í Hulduheimum-Koti, þar sem er skóli fyrir börn fædd 2022 og 2021. Hiti var settur í gólf og skipt um útidyrahurðir. Þannig batnar aðstaðan til muna fyrir þennan unga nemendahóp. Gerðar voru endurbætur í nokkrum skólum til að auðvelda þeim móttöku ungra barna.
Útlitið er nokkuð gott varðandi innritun nú í ágúst, en vel hefur tekist að stytta biðlista. Eins og fram kemur hér að framan er búið að innrita alls 135 börn af yngsta árgangi leikskólabarna. Börn af árgangi 2022 hafa verið innrituð í alla leikskóla bæjarins en flest þeirra eða um 80 börn eru skráð í Iðavöll, Krógaból eða Tröllaborgir/Árholt.
Nýjar leikskóladeildir opnaðar
Aðlögun barna mun hefjast í Dvergheimi, nýrri leikskóladeild í Oddeyrarskóla, mánudaginn 4. september. Deildin er rekin af leikskólanum Iðavelli og hafa framkvæmdir staðið yfir í vor og sumar. Deildin er fyrir yngsta barnahópinn og er útbúin sem slík, með hita í gólfi og góðri skiptiaðstöðu. Alls verða 24 börn á deildinni.
Móar, ný leikskóladeild Krógabóls í Síðuskóla, var afhent leikskólanum 16. ágúst eftir nokkrar endurbætur á húsnæðinu. Móar er fyrir 5 ára börn en flest þeirra eru búsett í skólahverfi Síðuskóla. Þangað flytja fyrstu börnin mánudaginn 21. ágúst en alls eru skráð 23 börn í Móa. Verið er að leggja lokahönd á framkvæmdir við skólalóðir leikskóladeildanna.
Myndir frá nýju leikskóladeildunum að neðan:


