Í júní hefjast leiklistarnámskeið hjá LA, en námskeið LA s.l. haust slógu algerlega í gegn og var troðfullt á öll námskeiðin. Yfir 100 krakkar á aldrinum 8 – 14 ára tóku þátt og hafa margir hverjir sýnt leiklist lifandi áhuga síðan m.a. með því að vera fastagestir í leikhúsinu í vetur! Því verður fjörið endurtekið.
Leiklistarnámskeið eru sambland af skemmtun og alvöru, á þeim fá nemendur þjálfun í að koma fram fyrir framan aðra, aukið sjáfstraust og hvatningu til að hugsa sjálfstætt, grunnþjálfun í sviðsframkomu og leiktækni. Markmiðið er að efla einbeitingu, frumkvæði, skapandi hugsun og tilfinningalegt innsæi nemenda sem og að þroska með þeim hæfileikann til að vinna í náinni samvinnu með öð
rum.
Kennslan fer fram með æfingum og leikjum. Farið verður í spuna, leikhússport og æfðar stuttar senur eftir því sem efni standa til. Nemendur og kennari spinna sig saman gegnum ævintýri leikhússins.
Leiklistarnámskeið fyrir fullorðna eru nýjung hjá LA. Þau eru fyrir fólk sem vill láta gamla drauma rætast eða gera eitthvað nýtt og skemmtilegt. Á þeim námskeiðum verða æfðar senur, draumasenur þátttakenda eða senur sem nemendur velja í samráði við kennara. Á námskeiðinu fá nemendur þjálfun í að koma fram, tjá sig, kynnast sjálfum sér og leika sér!
Kennt verður á sviði leikhússins og nemendur kynnast krókum og kimum hússins.
Námskeiðin verða sem hér segir:
8 – 9 ára: 6. – 16. júni. Kennt frá mánudegi til fimmtudags kl. 13 – 15.
10 – 11 ára: 6. – 16. júní. Kennt frá mánudegi til fimmtudags kl. 15. 30 – 17.30
12 – 14 ára: 20. – 30. júní. Kennt frá mánudegi til fimmtudags kl. 15.30 – 17.30
15. ára og eldri: 6. – 29. júní. Kennt á mánudögum og miðvikudögum kl. 20.00 – 22.00
Fullorðnir: 7. – 30. júni. Kennt á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 20 til 22.
Enn eru nokkur sæti laus á námskeiðin.
Öll námskeiðin eru 8 skipti, kennt er 2 tíma í senn. Kennari Hildigunnur Þráinsdóttir
Verð: 8000
Hægt er að skrá sig á netfangið midasala@leikfelag.is eða í síma 862 8011 eftir klukkan 17. á daginn.
Nánari upplýsingar á heimasíðu LA: leikfelag.is