Leikið á litróf tilfinninganna

Kór Akureyrarkirkju.
Kór Akureyrarkirkju.

Það er ekki orðum aukið að mikið verði um dýrðir þann 28. apríl í Hofi. Þá gengur Sinfóníuhljómsveit Norðurlands til liðs við Kór Akureyrarkirkju, stærsta kirkjukór landsins, Barokksmiðju Hólastiftis og hluta af landsliði íslenskra einsöngvara, þau Huldu Björk Garðarsdóttur sópran, Alinu Dubik mezzósópran, Snorra Wium tenór og Ágústi Ólafssyni bassa. Tónleikarnir hefjast kl. 16.00.

Þessi öflugi ríflega hundrað manna hópur flytur verkið Missa Dei Patris eftir tékkneska tónskáldið Jan Dismas Zelenka (1679-1745) undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar sem jafnframt er organsisti og kórstjóri Akureyrarkirkju. Verkið er krefjandi og undirbúningur mikill og er með stærri verkum sem Kór Akureyrarkirkju hefur tekið þátt í.

Mikil ánægja ríkir með samstarfið enda opnast við það mörg tækifæri. Með samvinnu mismunandi  aðila sem koma að menningarstarfi er hægt að setja upp stærri og meira krefjandi verk en ella og er það von allra að þetta verkefni sé bara byrjunin.

Eyþór Ingi segir samstarfshópinn fullan tilhlökkunar. „Þetta verða glæsilegir tónleikar. Að leiða saman Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, frábæra einsöngvara og þennan sterka og magnaða kór sem Kór Akureyrarkirkju er, býður upp á einstaka upplifun sem enginn tónlistarunnandi ætti að láta fram hjá sér fara. Hópurinn er samheldinn og það er mjög gefandi fyrir alla þessa aðila að fá tækifæri til að vinna saman og skapa tónlistaratburð af þessu tagi“

Missa Dei Patris er á margan hátt óvenjulegt verk, sérstaklega ef það er borið saman við verk samtímamanna Zelenka, J.S. Bach, G.F. Händel o.fl. Í verkinu eru hressileg tékknesk þjóðlagaáhrif, ítölsk gamansemi og hraði ásamt áhrifum frá þýska barokkskólanum. Verkið er fjörugt og krefjandi fyrir kór og hljómsveit vegna mikils hraða sem er aðaleinkenni þess. Verkið er engu að síður afar aðgengilegt á að heyra.

Miðinn kostar 4.900 kr. en 2.500 kr. fyrir 18 ára og yngri. Miða má nálgast í miðasölu Hofs í síma 450 1000 og á www.menningarhus.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan